„Furðulegt hvað sumir þingmenn láta það alltaf fara í taugarnar á sér þegar forsetinn heldur uppi vörnum fyrir Ísland,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á heimasíðu sinni þar sem hann lýsir undrun sinni vegna gagnrýni þingmanna úr röðum stjórnarliða á ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á Alþjóðaefnahagsþinginu í Davos sem lauk í dag.
Sigmundur segir Oddnýju G. Harðardóttur, þingflokksformann Samfylkingarinnar, þannig hafa verið ósátta við gagnrýni Ólafs á Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, og vilja fyrir vikið fá nýtt ákvæði í stjórnarskrá til „að þagga niður í forsetanum“. Þá vísar hann til þess að Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hafi sakað Ólaf um að fara rangt með áhrif niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu sem greint verður frá á morgun.
„En þegar forsetinn talaði um að dómurinn yrði ekki bindandi var hann að svara spurningum um mögulegt fjárhagstjón og það er rétt að dómurinn mun ekki fela í sér tilteknar skaðabætur,“ segir hann ennfremur og bætir við: „Ástæðan fyrir því að Ólafur Ragnar hefur tekið að sér að verja málstað Íslands er sú að ríkisstjórnin hefur vanrækt það hlutverk sitt.“
Sigmundur gagnrýnir að lokum mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á áhrifum niðurstöðu EFTA-dómsins á skuldastöðu Íslands, sem alþjóðleg matsfyrirtæki hafi síðan tekið mið af, í ljósi þess að niðurstaðan muni ekki kveða á um fjárhagsskuldbindingar fyrir landið. „En hvaðan fékk AGS upplýsingarnar? Frá íslenskum stjórnvöldum, þeim hinum sömu og gagnrýna Ólaf Ragnar þegar hann bendir á staðreyndir.“