„Tíma stjórnmálamanna sóað í gælumál“

,,Við höfum glímt við að konur hafi ekki tekið jafn …
,,Við höfum glímt við að konur hafi ekki tekið jafn mikinn þátt og karlar. Við erum ekki flokkur sem talar fyrir kynjakvóta heldur leitumst við að leysa þetta með öðrum hætti. Ég vona að okkur Hönnu Birnu takist að auka áhuga kvenna á baráttunni og þátttöku í starfi Sjálfstæðisflokksins,“ segir Ragnheiður Elín. Friðrik Tryggvason

„Fyrstu tölur líta mjög vel út og ég er alsæl með þennan árangur,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem er með örugga forystu eftir að um helmingur atkvæða í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem fram fór í gær hafa verið talin.

Sjá tölur hér

Aðspurð segist hún ekki hafa átt von á að njóta svo mikils fylgis. „Ég fann fyrir miklum stuðningi en átti kannski ekki von á svona flottum tölum. Ég er afar þakklát og stolt og full auðmýktar yfir traustinu,“ segir Ragnheiður Elín. „Ég heiti íbúum Suðurkjördæmis því að ég muni reyna hvað ég get til að standa undir því,“ segir hún.

Innt eftir skýringu á þessum mikla meðbyr segir Ragnheiður hana líklegast liggja í skýrum áherslum sínum hvað varðar forgangsröðun og efnahagsmál. „Málflutningur okkar í þinginu hefur greinilega fallið í kramið hjá kjósendum í Suðurkjördæmi. Hér í kjördæminu er áhugi á að koma hjólunum aftur í gang, við fundum skýrt fyrir því að það sem helst brennur á íbúum eru fjármál heimilanna og atvinnumál,“ segir Ragnheiður Elín. „Þetta eru stóru málin og menn eru orðnir leiðir á að sjá tíma okkar stjórnmálamanna sóað í gælumál. Tökum sem dæmi breytingar á stjórnarskránni, sem eru allra góðra gjalda verðar en þær eiga hins vegar ekki að vera forgangsmál þegar fólk nær ekki endum saman,“ segir hún.

Góður byr í seglin

„Í þessari kosningabaráttu lofaði ég að beita mér fyrir því betur yrði forgangsraðað, bæði hvað varðar tíma og fjármunum ríkisins. Við þurfum að tryggja að unga fólkið okkar hafi atvinnutækifæri og fjölskyldur geti séð sér farborða,“ segir Ragnheiður Elín. 

„Stemningin gagnvart Sjálfstæðisflokknum er jafnframt góð, við finnum fyrir miklum stuðningi hér í kjördæminu. Á Suðurnesjunum eru menn orðnir langþreyttir á ríkisstjórninni og finnst vera kominn tími til að standa saman og að koma hreyfingu á hlutina á ný,“ segir Ragnheiður Elín.

„Það er komið að okkur. Þá er mikilvægt að hafa sterkt umboð, sem ég tel mig hljóta með þessari kosningu enda þátttaka í prófkjörinu góð. Það fær okkur ekkert stoppað hér í Suðurkjördæmi,“ bætir hún við. 

Aðspurð hvort niðurstaðan slái tóninn fyrir komandi kosningabaráttu segir hún svo vera. „Ég hlakka til að taka þá baráttu með þennan byr í seglum. Ég fann það í aðdraganda prófkjörsins að fólk hefur aukinn áhuga á stjórnmálum, er tilbúið að taka þátt í starfinu og áhuga á því sem hér fer fram,“ segir Ragnheiður Elín. 

Hún fagnar góðri þátttöku í prófkjörinu. „Hér tóku fleiri þátt en víðast hvar annars staðar, en rétt tæpur helmingur flokksmanna tók þátt. Ég vona að við séum að ná að sporna gegn dvínandi áhuga og gremju gagnvart pólitík og að slíkt víki fyrir baráttugleði og krafti,“ segir Ragnheiður Elín.

Sjálfstæðiskonur sækja í sig veðrið

Hún fagnar auknu fylgi kvenna í flokknum. „Við Hanna Birna fáum báðar fína kosningu og ég er mjög glöð að sjá Unni Brá í öðru sæti. Konur skipa tvö efstu sætin í þessu kjördæmi og ég fagna því mjög. Vonandi er þetta vísbending um það sem koma skal,“ segir Ragnheiður og bætir við að hún finni fyrir auknum áhuga meðal kvenna gagnvart þátttöku í starfinu. „Ég fann mikið fyrir stuðningi kvenna í prófkjörinu og sé konur koma í auknum mæli nýjar inn í starfið. Margar konur komu til að mynda að þessu framboði sem ekki hafa áður tekið þátt í pólitísku starfi. Þannig fáum við nýja til liðs við okkur og sköpum aukna breidd,“ segir Ragnheiður Elín. 

Hún tekur undir að tímabært hafi verið að konur sæktu í sig veðrið innan raða Sjálfstæðisflokksins. „Við höfum glímt við að konur hafi ekki tekið jafn mikinn þátt og karlar. Við erum ekki flokkur sem talar fyrir kynjakvóta heldur leitumst við að leysa þetta með öðrum hætti. Ég vona að okkur Hönnu Birnu takist að auka áhuga kvenna á baráttunni og þátttöku í starfi Sjálfstæðisflokksins,“ segir Ragnheiður Elín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert