„Við erum með yfir 50 breytingar sem samt sem áður eru í anda stjórnlagaráðs. Eins og sumir fulltrúar stjórnlagaráðs hafa sagt þá má alltaf bæta og við reynum að gera það en höldum grunntillögum þeirra,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, um afgreiðslu stjórnlagafrumvarpsins úr nefnd.
Mikill styr hefur staðið um 34. grein frumvarpsins um náttúruauðlindir og segir Valgerður að greinin sé færð í sem upprunalegast horf, eftir athugasemdir ýmissa aðila.
„Við tökum út hugtakið einkaeignarréttur og notum aftur orðið í einkaeigu,“ segir Valgerður sem telur þetta dæmi um efnislegt atriði „sem ætla verður að þingmenn vilji hafa skoðun á“.
Fram kemur í áliti nefndarinnar að endanlegri umfjöllun um einstök ákvæði frumvarpsins, t.d. æðstu stjórnskipan og þjóðaratkvæðagreiðslur, sé ekki lokið. Lokayfirferð bíði álits Feneyjanefndar.
Sérfræðingahópi var falið að yfirfara frumvarpið og tók meirihluti nefndarinnar margar tillögur hópsins ekki til greina. Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir frumvarpið ekki tilbúið.