Efta-dómstóllinn í Lúxemborg mun kveða upp dóm sinn í Icesave-málinu klukkan 10.30 að íslenskum tíma í dag.
Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Lúxemborg, mun verða viðstaddur dómsuppkvaðninguna fyrir Íslands hönd, en vænta má fyrstu viðbragða frá Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra fljótlega eftir að dómur verður kveðinn upp. Málflutningsteymi Íslands mun veita aðstoð við að meta niðurstöður dómsins en vænta má frekari viðbragða frá ríkisstjórninni síðar um daginn.
Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra segir að stjórnvöld séu undirbúin fyrir allar hugsanlegar niðurstöður í málinu. Nokkur ráðuneyti hafi unnið saman að undanförnu til að kortleggja viðbrögð.
Katrín segir að fyrst og fremst muni þurfa að rýna afar vel í niðurstöðuna og að farið verði yfir hana á yfirvegaðan hátt. sgs@mbl.is