Eigum ekki að leita sökudólga

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að fagna bæri niðurstöðu Icesave-málsins en ekki leita sökudólga. Það voru stjórnvöld haustið 2008 sem ákváðu að leita samninga við Breta og Hollendinga og annað var ekki í stöðunni fyrir Ísland.

„Ég var sjálf trúuð á málstað Íslands og ekki síst þegar leið á málaferlin hjá EFTA. Þetta er niðurstaðan og við fögnum henni,“ sagði Jóhanna. Hún sagðist þess fullviss að niðurstaðan hefði jákvæð áhrif fyrir Ísland, mundi setja kraft í endurreisnina; lánshæfisfyrirtækin endurskoði hugsanlega sína niðurstöðu og þetta hefði jákvæð áhrif á afnám gjaldeyrishafta.

Þegar hún var spurð hvort ekki væri skrítið að fagna sigri þegar hann væri ekki fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar sagði Jóhanna að allir hefðu haft hagsmuni Íslands í huga, meðal annars þegar sest var að samningaborði. „Allir eiga að fagna á þessari stundu en ekki leita að sökudólg.“

Hún sagði að með því að ganga til samninga hefði Ísland fengið alþjóðasamfélagið með í lið. Hefði þessi vilji ekki verið fyrir hendi væri óvíst hvernig hefði farið með endurreisnina, auk þess sem Ísland hafði sjálft ekki stöðu til að sækja málið fyrir dómstólum.

Jóhanna Sigurðardóttir gefur viðbrögð sín.
Jóhanna Sigurðardóttir gefur viðbrögð sín. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka