Lögregla höfuðborgarsvæðisins aðstoðaði í dag Sýslumanninn í Reykjavík við að bera kaupmanninn Júlíus Þorbergsson, sem betur er þekktur sem Júlli í Draumnum, út úr verslunarhúsnæði sínu við Rauðarárstíg og íbúð í sama húsi. Eignirnar voru síðastliðið haust seldar á nauðungaruppboði.
Fyrir utan húsnæðið eru nokkrir flutningabílar og er þegar byrjað að bera muni út úr íbúð Júlíusar. Þá er verið að reyna að komast inn í söluturninn. Tilraunir voru gerðar til að bora út lásinn en það tókst ekki, og stendur til að reyna komast inn um glugga.
Meðal annars var fjallað um útburðarmál Júlíusar í Fréttablaðinu 17. janúar sl. Þar sagði Júlíus að hann ætlaði ekki að yfirgefa húsið. Júlíus er hins vegar ekki á staðnum núna, þegar fulltrúar sýslumanns bera hann út.
Fréttablaðið greindi einnig frá því að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði úrskurðað um það 16. janúar að bera skyldi Júlíus út úr húsnæðinu. Þar segir að eignirnar tvær, sem skráðar eru á Draum ehf., hafi verið settar að veði fyrir láni sem sonur Júlíusar tók. Lánið fór í vanskil og voru eignirnar að lokum seldar á nauðungaruppboði.