„Mikið fagnaðarefni“

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Þetta er auðvitað mikið fagnaðarefni og gott að sjá að dómstóllinn hefur fallist á þau skýru rök sem sett voru fram,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður utanríkismálanefndar, um niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu.

„Ég held að við séum að uppskera árangurinn af þeirri samstöðu sem okkur tókst að skapa um skynsamlega málsvörn og halda fram öllum okkar sterkustu rökum. Um leið og það var gert þá sá maður að málið byggði á sterkum grunni. Það er greinilegt að dómstóllinn hefur fallist á þau sjónarmið, að með setningu neyðarlaganna hafi menn verið að grípa heildstætt á alvarlegum vanda og fjármálahruni. Þetta hafi ekki verið hefðbundið bankagjaldþrot í afmörkuðum skilningi,“ segir Árni Páll í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir Árni Páll að menn beri að fagna því að Íslandi hafi náð rétti sínum fyrir alþjóðlegum dómstóli í þessu máli.

„Núna er ljóst að það eru engin efnisrök fyrir kröfum Breta og Hollendinga á hendur okkur,“ segir hann. Ljóst sé að það sem gerðist á Íslandi hafi ekki verið séríslenskt klúður heldur hafi fjármálakerfi Evrópu á þessum tíma verið í algjöru uppnámi. Afleiðingar þess hafi verið að koma fram í mörgum löndum á undanförnum árum.

„Ég held þar af leiðandi að þróunin á síðustu árum hafi að sumu leyti hjálpað okkur hvað það varðar, að það hefur líka orðið öllum ljóst í þvílíkt öngstræti sú hugmyndafræði að láta almenning bera kostnað af bankahrunum er kominn út um alla Evrópu, og út um allan heim,“ segir Árni Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert