„Við Íslendingar höfðum fullan sigur,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra á Alþingi rétt áðan, í munnlegri skýrslu sinni um dóm EFTA-dómstólsins um Icesave. Hann sagði stjórnmálamenn geta lært af málinu og að nú væri ljóst að Icesave-skuldin yrði greidd af réttum skuldara, þrotabúi Landsbankans.
„Sigur Íslands var svo algjör. Það var athyglisvert að dómarinn tók allar röksemdir Íslands til greina nema eina,“ sagði Össur.
Hann sagði að miklu máli hefði skipt að eftir að ákveðið var að málið færi í farveg dómstóls, hefði verið samstaða um hvernig að því yrði staðið.
„Við eigum að læra af þessu, við stjórnmámennirnir sem hér sitjum. Samstaðan skiptir máli.“
Össur rakti málavöxtu og hvernig málinu hefði undið fram. Þjóðaratkvæðagreiðslur hefðu verið haldnar, en stjórnskipan Íslands hefði staðist prófið og málið sett í farveg sem samstaða hefði náðst um og síðan lokið með þeirri niðurstöðu sem náðist í morgun.
„Þetta er eitt hið erfiðasta mál sem við Íslendingar höfum glímt við, það hefur hvílt eins og mara á þjóðinni og verið langerfiðasta mál okkar í samskiptum við alþjóðasamfélagið,“ sagði Össur og sagði að fyrirfram hefðu jafnvel bestu og nánustu vinir Íslands talið að erfitt yrði að ná þar fram sigri.“
Össur sagði málflutning Tims Ward, aðalmálflytjanda Íslands, hrósverðan. „Þetta er lögfræðilegt meistaraverk sem á eftir að rata inn í kennslubækur framtíðarinnar á sviði Evrópuréttar,“ sagði Össur.
Hann sagði að nú yrði vel heppnaðri endurreisn haldið áfram. „Íslendingar munu standa í skilum. Icesave-skuldin verður greidd af réttum skuldara, þrotabúi Landsbankans.“
Össur sagði að sjónarmið Hollendinga og Breta hefðu framan af notið víðtæks stuðnings í alþjóðasamfélaginu. Hann sagðist taka ofan fyrir EFTA-dómstólnum fyrir hugrekki til að dæma á þann veg sem hann gerði í morgun og sagði þá sem gáfu sér fyrirfram „hnjáliðamýkt dómstólsins“ hafa haft rangt fyrir sér. „Hann [dómstóllinn] stóð alla þá áraun sem felst í því að stikla eins og laxinn gegn straumnum,“ sagði utanríkisráðherra.