„Stórkostlegur sigur fyrir okkur“

„Stórkostlegur sigur fyrir okkur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, um niðurstöðuna í Icesave-málinu. Hann sagði ferlið hafa verið langt og erfitt og þjóðin sem heild eigi að láta það eftir sér að gleðjast.

Steingrímur sagðist gleðjast óskaplega og fagna niðurstöðunni, og það hljóti allir Íslendingar að gera. Niðurstaðan hafi verið mun hreinni og afdráttarlausari en hægt hefði verið að gera sér von um, og málsvarnarkostnaður hafi unnist einnig. Þetta sé því fullnaðarsigur.

Spurður hvort það væri grundvöllur fyrir skaðabótamáli vegna Icesave-málsins sagði Steingrímur ekki tímabært að ræða slíkt. Málsvarnarteymið hafi hins vegar unnið ævintýralega gott starf og öll rök þess tekin góð og gild.

Um inngrip forsetans og hvort niðurstaðan væri ekki stórkostlegur pólitískur ósigur sagði Steingrímur. „Ef við hefðum tapað málinu í dag, eða tapað því illa, ættum við þá að snúa þessu við og ráðast á aðra út af því. Við eigum að gleðjast yfir því að niðurstaðan er komin. Við erum komin með botn í málið. Vonandi skulum láta það eftir okkur að vera í góðu skapi í nokkra daga; ekkert á að láta skugga falla yfir þessa niðurstöðu í dag.

Hvað viðbrögð Íslands í utanríkisþjónustinni varðar sagðist Steingrímur telja að Ísland eigi að sýna stærð sína. Gleðjast ekki yfir því að hafa sigrað og vera ekki súr út í Breta og Hollendinga eða aðra, þó tilefni sé til þess eftir því hvernig komið var fram við Íslendinga. „Það skiptir mestu að nú erum við með sigur. Það þarf ekki að fara ýfa þetta mál aftur í tímann eða gegn alþjóðastofnunum.“

Steingrímur sagði að Íslendingar ættu að sameinast um að láta þessa ánægjuleg frétt sem bylgju fara um Evrópu, um að við séum tryggari fyrir vikið, að við séum á betri braut en ella með þessa niðurstöðu í vasanum.

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka