Vilborg Arna: „Tregi yfir að þetta sé búið“

Þeir eru ekki margir sem hafa gengið einir síns liðs 1.140 kílómetra leið yfir ísbreiðu Suðurskautslandsins á suðurpólinn. Vilborg Arna Gissurardóttir er sú 29. í heiminum sem lýkur þessu afreki og 9. konan. Vilborg gekk fyrir góðan málstað og er í skýjunum með árangurinn en segir svolítinn trega fylgja því að ljúka langþráðu markmiði.

„Ég hef lýst þessu eins og að verða ástfanginn. Maður verður hugfanginn og þetta er það eina sem maður hugsar um á morgnana og kvöldin en það er pínu erfitt að klára líka því þá er þetta bara búið.“

Þraukað í erfiðum aðstæðum

Vilborg Arna kom til landsins seint í gærkvöldi eftir rúmlega tveggja mánaða ferðalag á suðurpólinn, en það var ekki að sjá á henni að hún væri þreytt eftir þrekraunina þegar hún spjallaði við mbl.is í dag.

Hún segir gönguna á suðurpólinn oft hafa tekið á. „Auðvitað voru margir erfiðir dagar en líka margir ánægjulegir [...] Þetta er eyðimörk og að mörgu leyti harðneskjulegt umhverfi. Maður er gestur í þessu umhverfi og þarf að umgangast það af mikilli virðingu og varkárni því ef maður gerir það ekki býður maður hættunni heim.“

Vilborg segist hafa kynnst sjálfri sér vel á göngunni enda hugleiddi hún mikið á og þegar aðstæður voru góðar lét hún hugann reika. Aðspurð hvort hún hafi dregið einhvern lærdóm af þessari lífsreynslu sem hægt sé að ráðleggja öðrum sem vilja setja sér markmið og ná þeim segir Vilborg: „Þrauka. Þrauka í erfiðum aðstæðum, bara ekki gefast upp og vera rosalega einbeittur í að ná markmiðinu sínu því það er það sem þarf til.“

13,5 milljónir hafa safnast

Í nafni leiðangursins hafa safnast rúmar 13,5 milljónir króna fyrir Líf styrktarfélag, sem hefur þann tilgang að styrkja Kvennadeild Landspítalans. Vilborg segist hæstánægð með þann árangur, en þess má geta að enn er hægt að heita á Vilborgu.

Með því að hringja í síma 908-1515 dragast 1.500 krónur af reikningi í söfnunina en einnig er hægt að millifæra beint á reikning Lífs, 515-14-411000, kt. 501209-1040.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert