Farið var með snjóblásara upp á Fjarðarheiði í morgun, hann var að störfum í fimm tíma, en snjónum kyngdi jafnóðum niður og var því lítill árangur af þessu. Heiðin er því ennþá ófær. Formaður björgunarsveitarinnar á Seyðisfirði hefur áhyggjur af stöðu mála og segir að ófærðin geti haft alvarlegar afleiðingar ef einhver veiktist eða slasaðist í bænum.
„Við myndum auðvitað leita allra leiða, en auðvitað myndum við aldrei tefla í neina tvísýnu,“ segir Kristján Kristjánsson, formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs. Sveitin sér um sjúkraflutninga frá Seyðisfirði og hann segir ekki spurningu um hvort, heldur hvenær ófærð hafi alvarlegar afleiðingar.
Hann segir björgunarsveitarmenn ekki hafa þurft að koma bæjarbúum til aðstoðar. „Fólkið hérna veit að það kemst ekkert og er bara heima við. Við fórum upp á heiðina í gær og skoðuðum aðstæður og mátum það þannig að þarna yrði ekki farið nema í brýnustu nauðsyn og þá bara á snjóbíl.“
Kristján segir að reynt hafi verið að ryðja Fjarðarheiðina bæði í gær og í morgun. Venjuleg snjóruðningstæki dugi ekki til og reynt hefði verið að ryðja með snjóblásara í morgun. „Þegar hann var búinn að vera á fimmta tíma að blása, þá gáfust þeir upp og sneru við. Það fyllti bara í förin jafnóðum.“
Kristján segir að reyna eigi aftur að ryðja snemma í fyrramálið.
Fyrr í kvöld lýsti Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum.
Enn er fjöldi fólks veðurtepptur á Seyðisfirði eftir að hafa farið þangað á þorrablót á laugardagskvöldið. Hljómsveitin Spútnik, sem lék fyrir dansi á þorrablótinu, er einnig veðurteppt og sló upp balli í kvöld til að hressa bæjarbúa við.
„Við kunnum að gera það besta úr aðstæðum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þetta ástand er hér og líklega ekki í það síðasta,“ segir Kristján. „Við erum búin að læra að lifa með þessu.“