Samkvæmt samningi sem Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur og Skógræktarfélag Reykjavíkur gerðu í ársbyrjun mun Skógræktarfélagið halda áfram skógrækt á Heiðmerkursvæðinu. Orkuveitan birti í haust áhættumat vegna vatnsverndar og þar kemur fram að einn af áhættuþáttunum er efnamengun, m.a. frá skógrækt.
Samningur borgarinnar, OR og Skógræktarfélagsins er til 10 ára og verður framlengdur til fimm ára verði honum ekki sagt upp. Í samningnum segir að „auk vatnsverndar, skal sérstök áhersla lögð á að halda við og bæta skóglendi á svæðinu“. Einnig segir að Skógræktarfélag Reykjavíkur muni „annast og vinna að skógrækt, trjárækt, grisjun og hvers konar landgræðslu“.
Þegar deiliskipulag vegna Heiðmerkur var til umfjöllunar hjá Reykjavíkurborg í haust sendi Orkuveita Reykjavíkur inn umsögn um tillöguna þar sem ýmislegt í henni er gagnrýnt. Í umsögninni er bent á helstu áhættuþætti í sambandi við vatnsvernd á svæðinu. Þar er m.a. nefnd efnamengun „(efnaflutningar, efnanotkun, stóriðja, skógrækt, snjóbræðsla)“. Efnamengun fær einkunnina 7 og síðan segir: „Rauðar einkunnir (7-10) eru á aðgerðabili, sem þýðir að grípa þarf til ráðstafana til að draga úr hættu af viðkomandi þætti.“
Skógræktarfélag Reykjavíkur gagnrýndi þessa umsögn Orkuveitunnar. Í ályktun sem félagið sendi mbl.is segir að meginmarkmið þeirrar skógræktar sem Skógræktarfélagið og fleiri félagasamtök hafi stundað í Heiðmörk hafi verið náttúruvernd, að græða upp örfoka land og með því bæta aðstöðu til útivistar árið um kring, auka gæði drykkjarvatns borgarbúa og tekjuöflun til reksturs svæðisins.
Skógræktarfélag Reykjavíkur gagnrýnir einnig Orkuveitu Reykjavíkur fyrir að vilja ýta sumarhúsaeigendum út úr Heiðmörk, en OR tilkynnti eigendum um 20 sumarhúsa haustið 2011 að lóðarleigusamningar þeirra yrðu ekki endurnýjaðir. Samningarnir runnu út um síðustu áramót.
Skógræktarfélag Reykjavíkur bendir á að þessi ákvörðun Orkuveitunnar sé í ósamræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur. Í greinargerð með skipulaginu segir: „Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir nokkurri byggð á fjarsvæði B.“ Sumarhúsin standa öll á svokölluðu fjarsvæði B, sem er neðan við brunnsvæðin, næst Elliðavatni.
Í greinargerðinni þar sem fjallað er græna trefilinn segir: „Ekki er gert ráð fyrir fjölgun sumarhúsa á svæðinu en viðhalda má og endurnýja núverandi sumarhús á svæðinu. Með því er átt við að lagfæra má hús eða endurbyggja ný af sambærilegri stærð og eldri hús.“
Í greinargerð með aðalskipulaginu segir jafnframt: „Ekki er gert ráð fyrir svæðum fyrir frístundabyggð innan sveitarfélagamarka Reykjavíkur.“
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur bent á gagnsemi bústaðafólks í þágu almennings þar sem þeir virki sem vaktmenn Heiðmerkur um kvöld og helgar þegar enginn er annar á vaktinni.