Með tíma og tíma má binda vonir við að Icesave-deilan verði aðeins „fótnóta í sögunni“. Þetta er skoðun Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, sem telur að samningarnir sem Svavar Gestsson, fyrrverandi samráðherra hans, fór fyrir hafi sannað gildi sitt.
Þá taldi Steingrímur ekki aðalatriðið hvort málið myndi vinnast fyrir EFTA-dómstólnum og vekja þau ummæli athygli í ljósi þess að krafan sem þá hefði fallið á ríkissjóð nemur 64 milljörðum, að frátöldum vöxtum.
Steingrímur lýsti þessu yfir í óbirtum hluta ræðu hans á flokksráðsfundi Vinstri grænna á Grand hóteli um helgina, en ræðan var tæplega 40 mínútur og mjög efnismikil.
Er hér gripið niður í þann hluta ræðunnar þar sem formaður VG ræðir makríl-deiluna og Icesave-deiluna og kostnað við kynningu á að „undirbyggja málstað Íslands“ í þeim:
Ekki alveg ókeypis
„Það er reyndar ekki alveg ókeypis því við hliðina á okkur er fokdýrt erlent ráðgjafafyrirtæki og fjölmiðlatengslafyrirtæki sem að vinnur núna með íslenskum stjórnvöldum, bæði í makríl-málinu og Icesave-málinu.
Þá er ég kominn að Icesave. Auðvitað verður maður að tala um Icesave. Að sjálfsögðu. Það rennur upp stór dagur í þeim efnum á mánudaginn. Þetta er búið að vera erfitt mál og ég held að enginn sem hafi komið að því hafi haft af því nokkuð yndi, enda hefur enginn óskað sér þess, enginn valið sér það. Það er nú einn misskilningur í umræðunni.“
Sama hvernig fer
Steingrímur ítrekaði að eignir þrotabúsins gangi upp í kröfuna
„Þetta voru ósköp sem við sátum uppi með og varð að takast á við... Nú bíðum við dómsniðurstöðunnar en eitt liggur fyrir og það er ánægjulegt, að í aðalatriðum mun Icesave-málið, hvort sem það er að leysast, og það er að leysast í gegnum eignir út úr búi gamla Landsbankans, sem þegar eru búnar að borga niður um helming skuldarinnar, þannig að við þurfum ekki í sjálfu sér ekki að kvíða svo mikið niðurstöðunni. Auðvitað ef við vinnum er það glæsilegt því þá er Ísland miklu betur varið og væntanlega sloppið við frekari kröfur um vexti eða bætur. Það er þó ekki hægt að segja að það sé 100% öruggt. En þær eru þó annars eðlis og staða okkar augljóslega betri en ef við tækjum ekki [á herðar okkar] skyld[u] að einhverju leyti í þessum efnum. En þó svo verði að þá verður vörn okkar þessi hin sama: Að bú gamla Landsbankans á eignir til að greiða upp höfuðstól allra þessara innistæðna, bæði þeirra tryggðu og ótryggðu upp á á tólfta hundrað milljarða króna.“
Júní-samningarnir að virka
Steingrímur vék svo að Svavarssamningunum svonefndu.
„Það er sem sagt Landsbankaleiðin sem varð til með júnísamningunum vorið 2009 sem er að virka, hún er að leysa málið. Í staðinn fyrir að íslenska ríkinu yrði stillt upp á bak við þetta sem skuldara að þá sé það gamla Landsbankans að greiða jafnóðum þær eignir sem hann innheimtir inn á reikninginn og það er nákvæmlega það sem er að gerast. Ég held að við þurfum að vanda okkur við að hafa hófstillt og yfirveguð viðbrögð hver sem niðurstaðan verður. Og það undarlega er að það skiptir ekki máli hvort við vinnum, töpum eða töpum illa. Viðbrögðin verða nákvæmlega eins í öllum tilvikum: Búið mun borga þetta að uppistöðu til og landið sleppur þannig frá þessu að lokum eins og við bundum alltaf vonir við og vorum bjartsýnir á að þannig myndi þetta mál nú leysast. Kannski á það eftir að verða fótnóta í sögunni, svona þegar frá líður, þetta skelfilega mál,“ sagði Steingrímur og hlógu þá nokkrir viðstaddra.“