Íslenskur leiðsögumaður kom erlendri konu til bjargar sem lenti í lífsháska í Reynisfjöru í síðustu viku. Litlu mátti muna að brimalda sogaði konuna á haf út. Leiðsögumaðurinn segir nauðsynlegt að merkja svæðið.
Ingólfur Bruun leiðsögumaður segir í samtali við mbl.is að atvikið hafi átt sér stað sl. föstudag um kl. 13:30. „Það var rosalegt brim. Það var eins og það getur „best orðið“. Það voru gríðarlega stórar og háar öldur,“ segir Ingólfur sem var að sýna fimm manna hópi fjöruna.
Stuttu síðar kom svo fjögurra manna hópur erlendra ferðamanna sem voru þarna á eigin vegum.
„Ég sný baki í hópinn og er að tala við mitt fólk þegar tvö úr mínum hóp benda yfir öxlina á mér. Ég sný mér við og þá sé ég að kona úr þessum fjögurra manna hópi liggur í fjörunni,“ segir Ingólfur.
„Það var alveg greinilegt að sjórinn hafði náð henni. Hún lá þarna kylliflöt og ég stökk af stað.“ Hann bætir við að það hefði hann hins vegar ekki gert ef brimskafl hefði verið á leiðinni inn því þá hefðu þau bæði getað sogast á haf út.
„Ég reif hana upp og dröslaði henni í átt að fjörukambinum. Hún virtist vera illa áttuð og hún var rennandi blaut.“ Aðspurður segir hann að konan hafi ekki hlotið alvarleg meiðsl í þessum hrakningum.
Hann hitti konuna svo aftur fyrir tilviljun í Víkurskála um klukkustund síðar þar sem hún þakkaði Ingólfi kærlega fyrir aðstoðina.
„Maður brýnir fyrir sínu fólki að fara varlega; þetta er hættulegur staður og þarna hafa orðið tvö banaslys,“ segir Ingólfur og bætir við að það sé full ástæða fyrir fólk að fara að öllu með gát í fjörunni. Þá sé ekki síður nauðsynlegt fyrir fólk að hafa leiðsögumann með í för.
„Ég sagði við hópinn minn þegar við komum í fjöruna: „Skoðið skilin. Nú er snjóföl yfir; þið sjáið skýrt mörkin á snjónum og sandinum. Farið ekki mikið neðar,“.“
Ingólfur segir að það komi ekki á óvart að fólk geri þessi mistök. „Allt í einu getur komið risaskafl og hann nær nánast upp í fjörukambinn.“ Ingólfur tekur fram að konan hafi farið of neðarlega í fjörunni.
„Það þarf að merkja þetta betur,“ segir Ingólfur og bætir við að það eigi ekki að vera hlutverk landeigandans, sérstaklega í ljósi þess að hann rukki ekki aðgang að fjörunni.
Ingólfur leggur til að fyrirtæki í ferðaþjónustu taki höndum saman og láti útbúa skilti sem megi setja upp við bílastæðin í samráði við landeigandann sem eigi „ekki að gjalda fyrir það að eiga þennan fallega stað.“