Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur afgreitt til þriðju umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt en það á að tryggja jafnan rétt ólíkra lífsskoðana.
Í nefndarálitinu segir að meirihluti nefndarinnar vilji árétta þann skilning sinn að sóknargjöld séu ekki framlög úr ríkissjóði með einstaklingum sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með heldur séu þau félagsgjöld sem íslenska ríkið hefur tekið að sér að innheimta.
„Frumvarpið felur í sér réttarbót sem felur ekki í sér skerðingu á sóknargjöldum til annarra trúfélaga. Þessar breytingar sem lagðar eru til eiga að tryggja jafnan rétt ólíkra lífsskoðana en eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að tryggja vernd fyrir hugsana-, samvisku-, trúar- og sannfæringarfrelsi.“
Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmið þess sé annars vegar að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög og hins vegar að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um til hvaða skráða trúfélags eða lífsskoðunarfélags barn skuli heyra.
Með frumvarpinu verður meðal annars heimilt að skrá lífsskoðunarfélög líkt og trúfélög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Við skráningu öðlast lífsskoðunarfélög þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög njóta samkvæmt lögum.
Frumvarpið er á dagskrá Alþingis í dag og verður að öllum líkindum tekið þar til þriðju umræðu.