Ríkið festir kaup á Teigarhorni

Búlandstindur er í landi Teigarhorns. Myndin er fengin af vef …
Búlandstindur er í landi Teigarhorns. Myndin er fengin af vef umhverfisráðuneytisins.

Ríkissjóður Íslands hefur að tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra fest kaup á óðalsjörðinni Teigarhorni í Djúpavogshreppi. Á jörðinni eru mikilvægar menningar- og náttúruminjar, þar á meðal jarðminjar sem hafa alþjóðlegt verndargildi. 

Þetta kemur fram á vef umhverfisráðuneytisins.

„Teigarhorn er um 2000 hektarar að stærð en á jörðinni er einn þekktasti fundarstaður geislasteina (zeoita) í heiminum. Vegna þessa var hluti jarðarinnar friðlýstur sem náttúruvætti árið 1975. Teigarhorn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í sögu og skráningu veðurfars hér á landi en þar hafa verið stundaðar veðurfarsathuganir síðan 1881 og mælingar á hitafari frá 1873. Þá þykir hús Weyvadts kaupmanns á Teigarhorni meðal mikilvægra menningarminja en það var byggt á árunum 1880–1882.

Gert er ráð fyrir að íslenska ríkið taki formlega við jörðinni 15. apríl en farin er af stað vinna við að móta framtíðarfyrirkomulag og hvernig umsjón með svæðinu verður háttað,“ segir á vef ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert