Lokað til Seyðisfjarðar í þrjá daga

Eins og staðan er núna er Norræna eina samgöngutækið sem …
Eins og staðan er núna er Norræna eina samgöngutækið sem Seyðfirðingar geta treyst á meðan Fjarðaheiðin er lokuð. mynd/Einar Bragason

Ófært hefur verið yfir Fjarðarheiði síðan á laugardag og því hefur ekki verið hægt að komast til eða frá Seyðisfirði í þrjá daga. Vegagerðarmenn urðu frá að hverfa í morgun vegna veðurs. Á Seyðisfirði bíður m.a. fólk sem var þar á þorrablóti á laugardagskvöld.

Snjómokstursmenn gerðu tilraun til að moka Fjarðarheiði í gær, en urðu frá að hverfa. Þeir reyndu aftur í morgun en veðrið var þannig að engin leið var að moka. Magnús Jóhannsson hjá Vegagerðinni á Austurlandi segir að veðrið eigi að versna þegar líður á daginn og hann segir ólíklegt að reynt verði aftur síðar í dag.

Magnús segir að mjög mikill snjór sé á heiðinni og það taki líklega 6-10 klukkutíma að komast í gegnum skaflana. Hann segir ljóst að ekki verði hægt að ráða við þetta nema með snjóblásara.

Hafa ekki komist heim af þorrablóti

Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, segir að ófærðin hafi valdið íbúum margvíslegum óþægindum. Vaktavinnufólk sem starfaði hjá Alcoa hafi ekki komist til vinnu. Framhaldsskólanemar sem stunda nám á Egilsstöðum hafi ekki komist í skólann. Þá hafi um helgina verið haldið fjölmennt þorrablót á Seyðisfirði og um 50 gestir sem sóttu blótið hafi verið veðurtepptir í bænum í þrjá daga. Hljómsveitin sem spilaði er líka veðurteppt.

Arnbjörg segir að ekki sé farið að bera á neinum vöruskorti í bænum. Það sem menn hafi mestar áhyggjur af sé ef einhver veikist alvarlega því að vegurinn yfir Fjarðarheiði sé eina leiðin til og frá Seyðisfirði. Engin fæðingardeild er á Seyðisfirði, en ein kona í bænum á von á sér á næstunni. „Það er ekki að ástæðulausu sem við Seyðfirðingar tölum um jarðgöng,“ segir Arnbjörg.

Magnús segir að það sé orðið talsvert síðan Seyðisfjörður hafi verið svona lengi einangraður, en þetta hafi oft komið fyrir áður fyrr. Hann vonar að hægt verði að opna Fjarðarheiði á morgun, en miðað við það snjómagn sem er á heiðinni er ólíklegt að það verði fyrr en síðdegis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert