Stærstu mistökin að leyfa Icesave-málinu að verða til

Þingmenn á Alþingi.
Þingmenn á Alþingi. mbl.is/Golli

Þingmaður Framsóknarflokksins sagði á Alþingi í dag að í ljósi niðurstöðu EFTA-dómstólsins í gær í Icesave-málinu svonefnda ætti ríkisstjórnin að biðjast afsökunar og segja af sér. Atvinnuvegaráðherra sagði að stærstu mistökin í Icesave-málinu hefðu verið að leyfa því að verða til.

Icesave-málið var nokkuð til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að það virðist vera íslenskum ráðamönnum mjög erfitt að biðjast afsökunar á mistökum sem sannanlega hefðu verið gerð.

Sagði Sigurður, að samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu hefði fyrsti Icesave-samningurinn, hefði hann verið samþykktur, kostað þjóðina á bilinu 2-300 milljarða króna á núvirði og áfallnir vextir Icesave-3 samningsins væru nú 43 milljarðar í erlendri mynt og kostnaðurinn í heild 83 milljarðar. „Allt þetta höfum við nú sloppið við," sagði Sigurður.

Hann sagði, að það væri lágmarkshluti þess að reyna að bæta siðferði í stjórnmálum að biðjast afsökunar. Eðlilegast væri þó, að ríkisstjórnin bæðist lausnar og axlaði þannig ábyrgð sína. Best væri að ríkisstjórnin bæðist afsökunar og segði af sér. Þá spurði Sigurður Steingrím J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, hvort ekki væri eðlilegt að fram fari rannsókn á þeirri pólitísku ábyrgð, sem ríkisstjórnin bæri á Icesave-málinu öllu.

Steingrímur sagði, að samkvæmt síðustu útreikningum sérfræðinga hefði upphaflegi Icesave-samningurinn óbreyttur og núvirtur og með 6% ávöxtunarstuðli kostað 137 milljarða króna. Sá samningur með þeim breytingum, sem Alþingi vildi gera á honum, hefði kostað 94 milljarða og þriðji samningurinn, kenndur við Lee Buchheit, hefði núvirtur kostað 63 milljarða króna.

„Ég velti því einnig fyrir mér hvort við eigum ekki að hafa í huga, að við værum að ræða á öðrum nótum ef við hefðum nú tapað í gær, “ sagði Steingrímur og bætti við að þá hefði verið spurning hvert afsökunarbeiðnirnar hefðu átt að beinast. „Það er engin spurning í mínum huga, að við hefðum ráðið við þessa samninga, hvern þeirra sem er, auðvitað  óskaplega gleðilegt að vera laus við þá og vera þá laus við áhættu af að efna þá."

Sigurður sagði sama hvort rætt væri um 50 eða 300 milljarða, þetta væru gríðarlegar fjárhæðir. Þá spurði hann Steingrím hvort hann vildi virkilega að umræðan ætti að snúast um það hvað hefði gerst ef Íslendingar hefðu tapað Icesave-málinu.

Hann sagði að mjög skorti enn á vilja stjórnvalda að biðjast afsökunar. „Ef það er tilfellið, að menn ætla að fela sig bakvið það að Norðurlöndin, Evrópusambandið og (Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn) hafi kúgað okkur til þessarar niðurstöðu, er þá ekki kominn tími til að ræða við Norðurlöndin? Er þá ekki kominn tími til að velta því fyrir sér hvort aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið hafi haft áhrif á þetta ferli?“ sagði Sigurður.

Steingrímur sagði að ekki mætti ætla neinum alþingismanni þá smæð að hafa ekki glaðst yfir sigri Íslendinga í gær.

Þá væri ekki hægt að horfa framhjá því mikla tjóni, sem þetta mál væri búið að valda og hvað þá því tjóni, sem hefði orðið hefðu Íslendingar ekki glímt við að reyna að leysa það. Icesave-málið hefði þannig valdið 9 mánaða töf á endurreisn Íslands og samvinnunni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Óséðir samningar

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím J. Sigfússon hvort hann væri enn á þeirri skoðun, að rétt hafi verið af ríkisstjórninni að koma Svavars-samningnum svonefndu óséðum gegnum Alþingi á sínum tíma. Þá spurði Unnur Brá Steingrím hvort hann væri enn þeirrar skoðunar að Svavars-samningarnir hafi verið glæsileg niðurstaða.

Steingrímur svaraði, að aðstæður Íslands hefðu því miður verið með þeim hætti árið 2009, að ekki hefði verið hægt annað en að reyna að leysa Icesave-málið með samningnum. Þá væri það ákveðin söguskýring, að reynt hefði verið að koma fyrstu Icesave-samningunum óséðum gegnum þingið. Raunin hefði verið sú, að þurft hefði samþykki beggja samningsaðila um það hvernig farið væri með samningsgögnin og framanaf hefði verið reiknað með, að samningarnir yrðu aðgengilegir fyrir þingmenn sem trúnaðargögn.

Steingrímur sagði, að ekki væri hægt að meta Icesave-málið án þess að skoða stöðu þess á hverjum tíma allt frá sumrinu 2008 en aðalatriðið væri, að það væri nú frá og allir hlytu að gleðjast yfir því.

Unnur Brá sagði, að því hefði ávallt verið haldið fram að ekki ætti að semja um hvað sem væri í Icesavemálinu. Hún spurði Steingrím hvaða lærdóm væri helst hægt að draga af þessu máli og vísaði til ummæla hans í fjölmiðlum í gær, að ef hann ætti að játa augljós mistök væri það, að hann hefði ekki séð að málið myndi snúa upp á sig pólitískt; það væri hugsanlega dómgreindarskortur.

„Ein mistök voru stærst í þessu máli og þau voru að leyfa þessu máli að verða til," sagði Steingrímur. Hann sagði að það hefði búið til stórhættulega stöðu fyrir Ísland, að íslenskum banka var leyft að safna óhemju innlánum í útibúum í útlöndum. 

„Örugglega hefði mátt gera margt betur þegar horft er í baksýnisspegilinn. Ég er ekki að skorast undan að líta yfir minn hlut í þeim efnum. Ég sagði það í gærkvöldi og get endurtekið það, að ég sá það ekki fyrir, að þetta mál myndi verða að þeim ósköpum í íslenskri pólitík [sem] raun bar vitni. Vegna þess að strax vorið 2009 var ég þeirrar skoðunar, að þetta mál væri alvarlegasta vandamál Íslands, að Landsbankinn gamli myndi á endanum eiga fyrir þessum skuldbindingum og það hefur nú komið á daginn og ýmsir vildu vera láta og veifa jafnvel enn tölum sem eru fullkomlega óraunhæfar um hvað það hefði kostað að efna mismunandi samninga."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka