Ekki hefur verið boðaður nýr fundur í kjaradeilu Landspítalans og hjúkrunarfræðinga á sjúkrahúsinu, en viðræðum var slitið í gærkvöldi eftir árangurslausan fund. Formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga spyr hvort stjórnvöld hafi kjark til að taka á kynbundnum launamun opinberra starfsmanna.
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að vandinn felist fyrst og fremst í kynbundnum launamun hjá hinu opinbera.
„Bjartsýni hefur ríkt undanfarna daga um að samningar næðust, einkanlega vegna minnisblaðs velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra frá því fyrir viku. Í því minnisblaði var í raun viðurkenndur sá kynbundni og ráðuneytabundni launamunur sem fulltrúar hjúkrunarfræðinga hafa bent á að hjúkrunarfræðingar hafi sætt undanfarin ár (og áratugi). Góðu heilli virtist ríkisstjórnin vilja bregðast við og stíga skref í þá átt að eyða þessum launamun,“ skrifar Elsa í pistli á vef Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga undir fyrirsögninni: Hjúkrunarfræðingar veita ekki hópafslátt.
Í samtali við mbl.is segir hún að þau orð, sem bæði forstjóri spítalans og velferðarráðherra létu falla í kjölfarið, hafi gefið vonir um að verið væri að stíga „alvöru skref“ í átt að lausn deilunnar.
„Stjórnvöld hafa boðið fram tiltekna fjárhæð sem er nokkur hundruð milljónir og það eru vissulega miklir peningar. En þegar henni er skipt á milli þeirra 1.348 hjúkrunarfræðinga sem starfa á Landspítalanum, þá er lítið handa hverjum og einum. Það er vandinn sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Elsa.
Hún segir að talsvert meira þurfi að koma til, svo hjúkrunarfræðingar geti fallist á tilboðið og segir að laun þeirra hafi verið borin saman við laun annarra háskólamennaðra stétta sem starfi hjá ríkinu. Til að jafna þann launamun þurfi á milli 1,32 til 1,54 milljarða á ársgrundvelli.
„Meðaldagvinnulaun hjúkrunarfræðinga í september árið 2012 voru 381.466 kr. á mánuði, en meðaldagvinnulaun háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins voru á sama tíma 463.202 og meðalmánaðarlaun viðskipta- og hagfræðinga hjá ríkinu, en þeirra grunnnám er einu ári styttra en nám hjúkrunarfræðinga, eru 476.871. Munurinn á meðaldagvinnulaunum þessara stétta er 95.000 á mánuði.“
Elsa segir að samanburður hafi líka verið gerður við lögreglumenn. Reyndar sé um að ræða mismunandi menntunarkröfur í þessum tveimur stéttum, en lögreglumenn séu stærsta karlastéttin hjá ríkinu, þeir vinna líka vaktavinnu og þurfa oft að bregðast við óvæntu álagi. „Þeir eru með um 80% af okkar dagvinnulaunum en fara upp í 112% af okkar launum þegar heildarlaun eru skoðuð, það er meðal annars vegna ýmissa aukagreiðslna.“
Í lok pistils síns spyr Elsa: „Hafa stjórnvöld kjark og þor til að taka stórt skref í að jafna kjör þessara stétta?“