Frá því klukkan tvö í nótt hefur Vegagerðin unnið að því að reyna að opna Seyðisfjarðarveg. „Það á ennþá eftir að taka einhverja klukkutíma,“ segir lögreglumaðurinn Jens Hilmarsson í samtali við mbl.is, en hann var staddur á veginum nú á níunda tímanum til að skoða aðstæður.
„Það voru einhverjir bílar sem voru skildir eftir hérna um helgina,“ segir Jens og bætir við að menn séu að athuga með það hvort hægt sé að sækja þá.
„Leiðir verða ruddar í dag þannig að lífið kemst af stað aftur,“ segir Jens ennfremur.
Óvissustig vegna snjóflóða er enn í gildi á Austurlandi. Að sögn Vegagerðarinnar er enn ófært á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og í Oddsskarði.
Aðspurður segist hann ekki vita til þess að ökumenn hafi lent í vandræðum á fjallvegum í gærkvöldi eða í nótt. „Við erum dálítið vön að vera í ófærð,“ segir Jens og bætir við að veturinn hafi minnt á sig í ár.
Veðurspáin fyrir næstu daga á Austurlandi er þokkaleg en um helgina er spáð frekari ofankomu.
Aðspurður segir Jens að hlutirnir hafi gengið upp varðandi sjúkraflutninga en bætir við: „Öryggismál eru hlutur sem við hugsum töluvert um hérna á Austurlandi en við búum við þessi erfiðu vetrarskilyrði. Eins og staðan er í dag er þyrlukosturinn okkur mjög erfiður, því hann er í tveggja og hálfs tíma fjarlægð,“ segir Jens.
Það taki þyrlur Landhelgisgæslunnar allt of langan tíma að fljúga austur ef um bráðatilvik sé að ræða. Því sé mikilvægt að hafa eina þyrlu nær, t.d. á Akureyri líkt og menn hafi rætt um. „Það myndi nýtast okkur mjög vel,“ segir Jens.