„Ég man þó öll partíin“

Árni Johnsen
Árni Johnsen Eggert Jóhannesson

„Ég man þó öll partíin sem ég hef verið í, utanríkisráðherra.“ Þetta sagði Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi í dag eftir að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra kallaði úr sæti sínu á meðan Árni hélt ræðu.

Umræða stóð yfir um atkvæðagreiðslu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög, en það á að tryggja jafnan rétt ólíkra lífsskoðana.

Árni sagði nóg um rótleysi og rugling í þjóðfélaginu án þess að aukið sé á slíkt með lagasetningu. „[Frumvarpið] er illa unnið, illa ígrundað og afgreitt svona eins og í partíi þegar menn segja „fáum okkur einn enn“. Meiri er nú ekki alvaran, virðulegi forseti. Það þekki ég af langri reynslu.“

Þá heyrðist ógreinilega að utanríkisráðherra kallaði eitthvað til Árna sem tók það óstinnt upp og sagðist þó muna eftir þeim partíum sem hann hefur sótt.

Frumvarpið var hins vegar samþykkt. Með því verður meðal annars heimilt að skrá lífsskoðunarfélög líkt og trúfélög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Við skráningu öðlast lífsskoðunarfélög þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög njóta samkvæmt lögum.

Í tilkynningu frá Siðmennt segir að félagið muni í framhaldi gildistöku laganna senda inn umsókn til ráðuneytis um skráningu sem lífsskoðunarfélag og tryggja þannig þrjú hundruð félagsmönnum Siðmenntar jafnræði á við fólk sem skráð er í trúfélög.

„Siðmennt hefur unnið að þessu máli í yfir tíu ár og fagnar því niðurstöðunni mjög. Þeir þingmenn sem lögðu málinu lið á undanförnum árum og greiddu því síðan atkvæði eiga þakkir fyrir og ekki síður hrós skilið fyrir að vinna mannréttindum lið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert