Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fóru fram á það á Alþingi í dag að umræðu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá yrði frestað í ljósi þess að fundur hefði verið boðaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í fyrramálið um frumvarpið. Fóru þeir hörðum orðum um vinnubrögð stjórnarliða í málinu.
Gert er ráð fyrir að önnur umræða um frumvarpið fari fram á Alþingi í dag. Sögðu þingmenn stjórnarandstöðunnar ljóst að málið væri ekki tilbúið til umræðu í þinginu enda hefði greinilega ekki verið lokið meðferð frumvarpsins í nefndum þingsins.
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, gagnrýndi þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins harðlega fyrir að stöðva hvert þjóðþrifamálið á fætur öðru í þinginu. Var þá kallað úr þingsal: „Eins og Icesave-málið?“
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sögðu að nefndin hefði gert ráð fyrir að fjalla áfram um frumvarpið eftir að það færi til umræðu í þinginu.