„Ekki verið að ýta undir fjárfestingar“

Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri verkfræðistofunnar Mannvits.
Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri verkfræðistofunnar Mannvits. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við höfum verið að bíða eftir nýjum verkefnum hér innanlands nokkuð lengi, það er talið í mánuðum. Það eru ekki margar nýjar fjárfestingar að fara í gang. Við höfum verið að sinna fjárfestingum sem fóru í gang fyrir löngu og hefur hægt og rólega verið að ljúka og eru meira eða minna að klárast á þessu ári eins og til dæmis Búðarháls.“

Þetta segir Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri verkfræðistofunnar Mannvits, í samtali við mbl.is en 21 starfsmanni hefur verið sagt upp hjá fyrirtækinu og miðast uppsagnirnar við næstu mánaðamót.

„Það er ekki margt nýtt í farvatninu. Sjávarútvegurinn heldur að sér höndum vegna óvissu sem sköpuð hefur verið í þeirri grein. Sama með ferðamannaiðnaðinn sem er í raun algerlega sleginn kaldur með skattabreytingum. Þannig að allt umhverfið er bara þannig að það er ekkert að ýta undir það að farið sé í einhverjar fjárfestingar,“ segir hann.

Eyjólfur segir aðspurður að um ákveðnar varúðarráðstafanir sé að ræða af hálfu fyrirtækisins og vissulega standi vonir til þess að verkefnastaðan innanlands batni þannig að mögulegt verði að endurskoða uppsagnirnar. Hins vegar standi verkefnastaðan vel erlendis og staða fyrirtækisins sé almennt mjög góð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert