Talið er að stofn hnúfubaka á Íslandsmiðum telji nú um 15 þúsund dýr og hefur stærð hans áttfaldast frá því á níunda áratug síðustu aldar. Hnúfubakur étur um eitt tonn á sólarhring og má því ætla að stofninn hér við land éti alls um 15 þúsund tonn á sólarhring af átu, sandsíli, loðnu, síld, makríl og öðrum tegundum misjafnt eftir árstímum. Rannsóknir á magainnihaldi hafa ekki verið gerðar, en ljóst að fullorðið dýr sem er 13-17 metrar að lengd og 25-40 tonn á þyngd þarf að éta mikið.
Þrátt fyrir mikla fjölgun má enn finna hnúfubak á válistum, en ýmsir listar eru notaðir varðandi slíka flokkun. Oftast er vitnað í lista sem kallaður er „IUCN Red List“ og þar er tegundin metin „ekki í hættu“ (least concern). Hins vegar er hann enn að finna á hinum stóra alþjóðlega listanum, svokölluðum CITES-lista sem fjallar um verslun með afurðir af tegundum í útrýmingarhættu, samkvæmt upplýsingum Gísla Víkingssonar, hvalasérfræðings á Hafrannsóknastofnun.
Eftir miklar veiðar urðu hnúfubakar sjaldgæfir við Ísland í byrjun síðustu aldar. Alþingi bannaði hvalveiðar hér við land frá 1915 og Alþjóðahvalveiðiráðið alfriðaði hnúfubak á Norður-Atlantshafi árið 1956. Tegundin sást sárasajaldan við landið á næstu árum, en 1986 var talið að um tvö þúsund hnúfubakar væru hér. Árin á eftir var fjölgunin mjög hröð eða 10-15% árlega þar til í talningu árið 2007 að ekki mældist marktæk aukning, sem gæti bent til að stofninn sé að nálgast náttúrulegt hámark, að sögn Gísla. Næsta hvalatalning við landið verður gerð 2015.
Það er ekki bara hér við land, sem hnúfubak hefur fjölgað, því sambærileg fjölgun hefur orðið við Ástralíu, í Kyrrahafi og víðar. Í Norður-Noregi hefur vakið athygli í vetur að hnúfubakur hefur elt síld nánast upp í fjöru í grennd við Tromsö. Hvort það merkir fjölgun hvala eða breytta hegðun síldarinnar liggur ekki fyrir, en fólk í landi hefur getað fylgst með lífsbaráttunni í sjónum.