Jón segir ofbeldið ekki ímyndun

Jón Gnarr
Jón Gnarr Eggert Jóhannesson

Jón Gnarr borgarstjóri segist hafa hlotið stuðning, virðingu og skilning flestra eftir færslu sína í gær um „einelti og hreint og klárt ofbeldi“ sem hann sagðist hafa orðið fyrir frá nokkrum fundargestum á íbúafundi í Grafarvogi í gærkvöldi. Jón segir það rangt að þetta hafi verið ímyndun.

Meðal þess sem komið hefur fram í dag er að Jón og hans fólk hafi verið kallað hyski og ætti að hypja sig burtu úr borgarstjórn. Þá hafi verið reynt að setja fundarstjóra af og taka yfir stjórn fundarins.

Jón skrifaði um málið á samfélagsvefinn Facebook í gærkvöldi og sagði meðal annars: „Mér fannst ég knúinn að segja frá þessu, ekki bara mín vegna heldur allra þeirra sem þurfa að lifa við niðurlægingu, háð, lítilsvirðingu, ógnanir og ofbeldi, í skólanum, á heimilinu, í vinnunni, netinu eða á götum úti. Af hverju þegjum við svo gjarnan yfir svona?

Einnig hafa komið fram þau viðhorf í dag að Jón sé að gera of mikið úr málinu og gengisfella hugtakið einelti. „En er það einelti þegar almenningur skammar borgarstjórann sinn?“ spyr Sigríður Guðmarsdóttir prestur í Guðríðarkirkju á vefsvæði sínu. Hún segir að vafalaust sé hægt að bæta umræðuhefð Íslendinga en að þegar valdmiklir menn tali um einelti á hendur sér séu þeir að taka yfir orðræðu hinna valdlausu.

Þá spyr Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, á Facebook hvers vegna Jón heldur fundi með borgarbúum ef hann treystir sér ekki til að svara gagnrýnum spurningum um hagsmunamál íbúanna. „Hann þarf að fara að gera sér grein fyrir því að fólk er ekki tilbúið til að taka þátt í þessum skrípaleik lengur og að fólk vill borgarstjóra sem axlar ábyrgð en er ekki skemmtanastjóri borgarinnar."

Borgarstjóri skrifar aðra færslu á Facebook í dag. Þar segist hann vona að hann hafi með skrifum sínum hrundið af stað gagnlegri umræðu. Hann þakkar fyrir stuðninginn en segir svo: „Einn og einn er þó með sérkennileg viðhorf; annars vegar að upplifun mín af ofbeldinu í gær hafi verið mín ímyndun á einhverju sem hafi ekki átt sér. Það er bara rangt.“

Þá segir hann annað viðhorf athyglisvert. „Það virðist mörgum finnast í lagi að veitast að fólki, með þessum hætti, sem starfar í stjórnmálum og stjórnmálafólk eigi að vera undir það búið og ekki vera með eitthvað „væl.“ Viljum við svoleiðis stjórnmál? Viljum við lýðræði þar sem fólk nær árangri með hávaða, frekju og ógnunum?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert