Króna í höftum ekki framtíðargjaldmiðill

Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn mbl.is

Í drögum að ályktun sem lögð verður fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins sem verður haldinn 21. - 24. febrúar segir að íslensk króna í höftum geti ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar.

„Íslenska krónan í höftum getur ekki verið framatíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef stefnt er að því að Íslendingar eigi kost á því að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni og afla þjóðinni tekna á alheimsmarkaði. Nú, fimm árum eftir að gjaldeyrishöft voru sett á „til bráðabirgða“ og engin trúverðug lausn hefur verið sett fram um afnám þeirra, er nauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkurinn taki forystu um að kannaðir verði til þrautar allir möguleikar fyrir Ísland í gjaldeyrismálum.

Landsfundur telur að Sjálfstæðisflokknum beri skylda til þess að setja afnám gjaldeyrishafta efst á forgangslista komist hann í ríkisstjórn. Til þess að svo megi vera telur landsfundur rétt að hafist verði handa við undirbúning um að taka í notkun alþjóðlega mynt á Íslandi í stað íslensku krónunnar. Alþjóðlegar myntir sem til greina gætu komið fyrir Ísland eru meðal annars Bandaríkjadalur, evra, Sterlingspund, norsk króna og Kanadadollar,“ segir í drögum að ályktun um efnahagsmál.

Í drögunum segir að Sjálfstæðisflokkurinn telji eðlilegt að láta kanni sérstaklega þau kjör og valkosti sem bjóðast við upptöku Kanadadollars og Bandaríkjadals. Mjög ólíklegt sé að útgáfulönd þessara mynta setji sig upp á móti því að Íslendingar notist við þeirra mynt. Sérstaklega beri að kanna möguleikann á vilja Kanadamanna til samstarfs og stuðnings við slíka gjaldmiðlabreytingu.

„Landsfundur leggur áherslu á að með því að skipta út íslensku krónunni gefst íslenskum fyrirtækjum í raun algjört frelsi um hvaða gjaldmiðill henti best miðað við rekstur þeirra. Þar með væri gríðarlega kostnaðarsamri óvissu í íslensku viðskiptalífi eytt.“

Í drögum að ályktun um utanríkismál segir að landsfundurinn telji að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. „Áréttað er að gera skuli hlé á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka