„Ítrekaðar tilraunir til að þjóðnýta skuldir einkabanka mistókust. Mikill meirihluti landsmanna kom í veg fyrir að skuldum Landsbanka Íslands vegna Icesave yrði velt yfir á íslenska skattgreiðendur þrátt fyrir að meirihluti þingmanna hafi í þrígang gert tilraunir til þess með lagasetningu,“ segir Óli Björn Kárson varaþingmaður í grein í Morgunblaðinu í dag.a
Í grein sinni segir Óli Björn m.a.: „Óhætt er að fullyrða að engum þingmanni hafi komið það til hugar árið 1944, að sá tími kynni að renna upp að reynt yrði að þjóðnýta skuldir einkafyrirtækja með því að ábyrgjast þær. Þessu vill stjórnlagaráð hins vegar breyta með frumvarpi sínu til nýrrar stjórnarskrár. Verði frumvarp stjórnlagaráðs samþykkt verður opnað fyrir þann möguleika að meirihluti þingmanna geti tekið ákvörðun um að almenningur ábyrgist fjárhagslegar skuldbindingar einkaaðila. Með öðrum orðum; stjórnarskráin mun beinlínis heimila slíka ábyrgð.“
Lokaorð Óla Björns: „Flest bendir til að fyrirhuguð bylting á stjórnarskránni muni ekki takast áður en þing lýkur störfum fyrir komandi kosningar. Því ber að fagna. En um leið ættu þingmenn að huga alvarlega að því að sameinast um að bæta setningu við 40. grein stjórnarskrárinnar. Í ljósi reynslunnar geta sósíalistar jafnt sem hægri menn sameinast um viðbót sem gæti hljóðað: „Aldrei má skuldbinda íslenska ríkið með neinum hætti vegna skulda einstaklinga eða einkafyrirtækja."“