„Ég sendi almenningi og stjórnvöldum á Íslandi hamingjuóskir með að hafa haldið fast við sannfæringu sína og neitað að láta undan yfirgangi Breta og Hollendinga í viðleitni þeirra til að kúga fé af íslenskum skattgreiðendum á ósmekklegan hátt,“ segir Alex Jurshevski, sérfræðingur í skuldamálum þjóðríkja, í tilefni af fullnaðarsigri Íslands í Icesave-deilunni.
Jurshevski kom til Íslands snemma árs 2010 til að kynna sér skuldastöðu þjóðarbúsins og varaði þá Íslendinga eindregið við því að ganga að þáverandi Icesave-samningum. Slíkt gæti ógnað stöðu þjóðarbúsins og efnahagslegu sjálfstæði landsins.
Hann rekur ráðgjafarfyrirtækið Recovery Partners í Kanada og á að baki langa reynslu af skuldauppgjöri, m.a. sem aðalráðgjafi nýsjálensku ríkisstjórnarinnar þegar andfætlingar okkar stóðu frammi fyrir greiðsluþroti fyrir um tveim áratugum.
Ráðlögðu íslenskum þingmönnum að vera þolinmóðir
Jurshevski rifjar upp ráð sem fyrirtækið gaf íslenskum stjórnmálamönnum.
„Eins og Recovery Partners benti Íslendingum á, bæði í riti og í Silfri Egils, vann lögfræðinga- og samningateymi íslensku stjórnarinnar afar gott starf. Það var að hluta til vegna þess að íslensk stjórnvöld sýndu hyggindi er þau hlustuðu á ráðgjöf þeirra og leyfðu ferlinu að hafa sinn gang án sýndartímamarka sem líklega hefðu leitt til óhagfelldrar niðurstöðu.
Í bloggi okkar „Hvers vegna Íslendingar verða að hafna samningnum“ (e. Why Iceland Must Vote „No“), sem við skrifuðum fyrir nærri þrem árum, ráðlagði stjórnarformaður Recovery Partners, Grant Reuber, Íslendingum að teygja á tímarammanum. Þetta var rétta aðferðafræðin og hennar vegna munu Íslendingar ekki bera myllustein frekari skulda. Þetta er það sem við ráðlögðum Alþingi þegar við ræddum við hinar ýmsu þingnefndir snemma árs 2010,“ segir Jurshevski en Reuber var aðstoðarfjármálaráðherra Kanada undir lok áttunda áratugarins.