Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði er frekar á því að tillögur stjórnlagaráðs séu ekki til þess fallnar að styrkja stöðu stjórnarandstöðu á þinginu. Hún óttast að ákvæði um að ráðherrar megi ekki sitja á þingi séu frekar til að styðja meirihluta þingsins. Þá sé lítið spornað við samþættingu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds í tillögunum sem einmitt veiki stöðu stjórnarandstöðu. Þetta kom fram á umræðufundi um tillögur stjórnlagaráðs í Háskóla Íslands í hádeginu.
Fimmti fundurinn í fundaröð háskólanna um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni fór fram í hádeginu í Háskóla Íslands. Til umræðu er, hlutverk og staða Alþingis í nýrri stjórnarskrá: Löggjafarhlutverk, eftirlit Alþingis með stjórnvöldum, nýtt hlutverk forseta Alþingis og samspil Alþingis og kjósenda í ákvarðanatöku. Frummælendur voru fræðimenn innan háskólasamfélagsins á sviði lögfræði og stjórnmálafræði.
Ragnhildur kallar eftir frekari rökstuðningi fyrir því að bann við setu ráðherra á þingi styrki stöðu löggjafarvaldsins. Hún segir nauðsynlegt að ræða slíkar tillögur betur. Hún sér ekki að slíkar tillögur auki á þrígreiningu ríkisvaldsins eða færi stjónarandstæðingum bjargir við aðhald sitt á framkvæmdavaldinu.