„Þetta er hærri tala en ég hef heyrt áður. Að auki verður að taka tillit til þess að þetta er með launatengdum gjöldum þannig að það verður að byrja á því að draga 25% frá og skipta upphæðinni síðan á milli þeirra 1.348 hjúkrunarfræðinga sem vinna á Landspítalanum,“ segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, um fréttaflutning af því að stjórnvöld hyggist veita rúmar 400 milljónir til endurskoðunar stofnanasamnings við hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum.
Elsa segir að sú tala, sem nefnd hefur verið á fundum deiluaðila, hafi verið nokkuð lægri. Hvað var hún há? „Ég vil ekki greina frá því núna, ég vil fyrst gera hjúkrunarfræðingunum grein fyrir því á mánudaginn. Við höfum rætt um að halda trúnað um það sem rætt er á fundum og við ætlum, okkar megin, að halda þann trúnað fram á mánudag. Ef aðrir ákveða annað, þá er það þeirra mál ef það eru vinnubrögðin sem þeir vilja ástunda.“
„Ég get sagt að ég var á fundi í fjármálaráðuneytinu í gær og þar var nefnd tala sem er nokkuð lægri en þessi. Ef menn ætla að setja út einhverjar tölur, þá eiga þær að vera réttar og ekki að vera í einhverjum blekkingum, sama hvaðan þessi tala hefur komið.“