Formaður Félags íslenskra hjúkrunafræðinga var í gær boðaður á fund í fjármála- og efnahagsráðuneytinu til fundar. Þar var honum kynnt útspil ríkistjórnarinnar og það fjármagn sem er til ráðstöfunar vegna endurskoðunar stofnanasamningsins. Á fundi samstarfsnefndar Fíh og Landspítala í morgun voru þessar áherslur ítrekaðar auk þess sem fulltrúum hjúkrunarfræðinga voru settir úrslitakostir.
Þetta kemur fram í frétt á vef Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Samstarfsnefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og Landspítala hittist á fundi í morgun um stofnanasamning hjúkrunarfræðinga. Samningaviðræður hafa staðið í rúmt ár eða frá nóvember 2011. Undanfarnar vikur hefur samstarfsnefndin fundað reglulega þar sem ræddar hafa verið ýmsar tillögur um endurskoðun stofnanasamningsins.
Ríkistjórnin samþykkti þann 21. janúar minnisblað fjármála- og efnahagsráðherra og velferðarráðherra um jafnlaunaátak 2013. „Í því minnisblaði var í raun viðurkenndur sá ráðuneyta- og kynbundni launamunur sem fulltrúar hjúkrunarfræðinga hafa bent á að hjúkrunarfræðingar hafi sætt undanfarin ár og áratugi,“ segir frétt Fíh.
Formaður Fíh var svo í gær boðaður í fjármála- og efnahagsráðuneytinu til fundar við ráðuneytisstjóra, formann samninganefndar ríkisins og aðstoðarmann fjármála- og efnahagsráðherra.
Þar var honum kynnt „útspil ríkistjórnarinnar og það fjármagn sem er til ráðstöfunar vegna endurskoðunar stofnanasamningsins. Nú er því ljóst hvert það fjármagn er sem stjórnvöld hyggjast setja í endurskoðun stofnanasamnings hjúkrunarfræðinga á Landspítala í tengslum við jafnlaunaátakið. Á fundi samstarfsnefndar í morgun voru þessar áherslur ítrekaðar auk þess sem fulltrúum hjúkrunarfræðinga voru settir úrslitakostir,“ segir ennfremur í fréttinni.
Fulltrúar hjúkrunarfræðinga munu kynna hugmyndir stjórnvalda og Landspítala varðandi endurskoðun stofnanasamnings hjúkrunarfræðinga fyrir starfandi hjúkrunarfræðingum á Landspítala á fundi á Grand Hóteli Reykjavík mánudaginn 4. febrúar kl. 20:00. Fulltrúar hjúkrunarfræðinga hafa óskað eftir fundi í samstarfsnefnd 5. febrúar.
Allir hjúkrunarfræðingar á Landspítala eru hvattir til að mæta á kynningarfundinn á Grand Hótel Reykjavík.