Össur: „Miklu hreinlegra að ganga í ESB“

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

Utanríkisráðherra segir að það sé mjög hallkvæmt fyrir Ísland að gerast aðili að fjármálaeftirlitskerfi Evrópusambandsins þó að það þýði framsal valds til ESB og gera verði breytingar á stjórnarskrá.

Hann segir að það sé „hallkvæmt fyrir Ísland og efnahagslega velferð þess, stöðugleika og öryggi að framselja vald með þessum hætti. En þetta er val.“

„Ef við hefðum haft slíkt kerfi fyrir 2008 þá hefði hrunið að minnsta kosti ekki orðið með þeim hætti sem það síðar varð,“ bætti ráðherra við. Að sínum dómi sé gott fyrir Ísland að hægt sé að þróa EES-samninginn með þessum hætti.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag tók Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fram að EES-samningurinn hefði breyst verulega frá því hann var samþykktur fyrir 20 árum. „Ég er þeirrar skoðunar, að í mörgum atriðum sé hann kominn út fyrir það sem heimilt er samkvæmt stjórnarskránni,“ sagði Össur og bætti við að þetta hefði hann bent á ítrekað.

„Ég tel að út af því hvernig þetta hefur þróast þá sé miklu hreinlegra fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið,“ sagði Össur.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Össur að því, hvers vegna þingið ætti að samþykkja breytingar á stjórnarskránni út af kröfu ESB sem eigi sér engan samningslegan grundvöll í ESS-samningum.

Bjarni  segir að enginn ágreiningur sé um það í þinginu að eftirlit með fjármálamörkuðum krefjist framsals sem sé utan heimilda núverandi stjórnarskrár.

„Þetta virðist hafa gefið meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitnefndar tilefni til þess að leggja til að í stjórnarskrá kæmi nýtt ákvæði þar sem við Íslendingar féllumst á - eftir kröfu Evrópusambandsins - að hverfa frá tveggja stoða kerfinu,“ sagði Bjarni.

„Það er algjörlega rétt hjá háttvirtum þingmanni að þarna er verið að tala um framsal valds vegna ákvarðana sem við sáum ekki fyrir þegar við stóðum í þessum sal og samþykktum aðild að EES,“ sagði Össur.

„Ég hygg ef við  heimilum ekki framsal með þessum hætti að þá kunnum við að standa frammi fyrir ákvörðun af því tagi [hvort Ísland eigi að stíga út úr EES-samstarfinu eður ei],“ sagði Össur.

„Við eigum ekki að undirgangast það með því að fara í breytingar á stjórnarskránni og segja: „Gott og vel, ef þetta er ykkar krafa þá skulum við verða við henni.“ Það er algjör eftirgjöf,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert