Frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða hefur verið lagt fram á Alþingi af Steingrími J. Sigfússyni, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, en fram kemur í greinargerð að frumvarpið sé samið með hliðsjón af vinnu svonefnds trúnaðarmannahóps sem í voru fulltrúar allra þingflokka á Alþingi fyrir utan Hreyfinguna en Þór Saari, þingmaður flokksins, gagnrýndi fyrirkomulag hópsins í sérstakri bókun þar sem hann hefði enga formlega stöðu samkvæmt þingsköpum. Tekið er fram að fulltrúar hópsins hafi verið sammála um ýmislegt í vinnu sinni en annað hafi verið ágreiningur um.
„Með frumvarpinu er leitast við að tryggja festu og öryggi í sjávarútvegi með tímabindingu aflahlutdeilda til langs tíma og fyrirsjáanleika um mögulegar breytingar á skipulagi sjávarútvegs. Um leið er komið til móts við önnur sjónarmið með auknum möguleikum til nýliðunar, stofnun kvótaþings og ráðstöfun aflamarks innan flokks 2. Þannig er með frumvarpinu leitast við að feta meðalveg til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða,“ segir í greinargerð.
Þá segir að lagðar séu til verulegar breytingar á ýmsum sviðum fiskveiðistjórnunar miðað við núgildandi lög. „Ein megin breyting frumvarpsins er sú að lagt er til að á hverju fiskveiðiári skuli ráðherra skipta heildaraflamarki nytjastofns sem lýtur veiðitakmörkunum í tvo flokka. Í flokk 1 falli aflamark útgerða samkvæmt aflahlutdeildum og krókaaflahlutdeildum en í flokk 2 falli aflamark samkvæmt annarri aflahlutdeild sem ríkið hafi forræði yfir.“