„Ég vil lýsa því að þetta eru ósönn og ósmekkleg ummæli,“ sagði Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í morgun og vísaði þar til þeirra orða Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Framsóknarflokksins, á þingi í gær að Árni hefði sumarið 2009 verið einn þeirra sem reynt hafi að koma fyrsta Icesave-samningnum óséðum í gegnum þingið og beitt flokksfélaga sína grimmilegum aðferðum í því skyni.
„Háttvirtur þingmaður veit að á þeim tíma sem þetta mál var til umfjöllunar á Alþingi 2009 var ég starfandi varaformaður fjárlaganefndar, var vakinn og sofinn yfir þessu máli og lagði mikla vinnu á mig til að afla gagna og fjalla um það, þannig að þessi ummæli eru rakalaus. Þau eru rógburður og illmælgi og ég vísa þeim aftur í þau iður úr hverjum þau eru runnin,“ sagði Árni.
Ásmundur, sem á þessum tíma var þingmaður VG og sat í fjárlaganefnd Alþingis, sagðist ekki hafa ætlað að særa nokkurn mann. Hins vegar væri ljóst að þegar fyrstu Icesave-samningarnir voru til meðferðar á Alþingi hafi gríðarlegum þrýstingi verið beitt til þess að reyna að koma því í gegn þrátt fyrir að meirihluti væri ekki fyrir því á meðal þingmanna. Ítrekað hafi verið reynt að taka málið úr fjárlaganefnd án þess að fyrirvarar væru gerðir við það.
„Rétt að sannleikurinn komi fram í málinu“
„Vegna þess að ekki var meirihluti við málið í fjárlaganefnd var farið í vinnu við gerð þessara fyrirvara. Þá var farið í vinnu við gerð fyrirvaranna. Saga þessa Icesave-máls verður vörðuð af þessum þrýstingi. Hæstvirtir ráðherrar þurftu meðal annars að segja af sér ráðherradómi. Ég vil segja að það var ekki ætlun mín að særa nokkurn mann en það er rétt að sannleikurinn komi fram í málinu,“ sagði hann.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra blandaði sér síðan í umræðuna í ljósi þess að hann var formaður fjárlaganefndar sumarið 2009. Sagði hann að vandað hafi verið til málsins á sínum tíma og sakaði Ásmund um að reyna að endurskrifa söguna. „Þetta er búið að vera erfitt mál, margir hafa komið að því og þeir sem þar hafa unnið eiga hrós skilið þannig að ég biðst undan því að menn séu að gera okkur upp skoðanir.“
Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók einnig til máls og sagði óþarfa að karpa mikið um málið. „Ég minni á þá tillögu sem þáverandi háttvirtur þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson flutti um rannsókn á þessu máli öllu og ég tel einboðið að við munum flytja hana aftur og vænti þá, í ljósi þeirrar orðræðu sem hér hefur orðið, öflugs stuðnings við hana.“