„Hvernig ætlar ríkisvaldið að bregðast við því vandamáli að Ísland sé í raun orðið stökkpallur flóttamanna héðan til annarra ríkja í von um betra líf?“ spurði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag og beindi orðum sínum til Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra.
Vigdís vísaði þar til mála sem upp hafa komið varðandi flóttamenn sem reynt hafi að komast um borð í flugvélar og skip hérlendis sem hafa verið á leið til annarra landa. Ekki síst Bandaríkjanna. „Þrátt fyrir ítrekaða fundi með yfirvöldum hérlendis um fyrirbyggjandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda hefur nánast ekkert áunnist í því að stöðva flóttatilraunir flóttamanna héðan.“
Ögmundur hafnaði því að ekkert hefði verið gert í þessum málum. Farið hefði verið yfir verkferla og viðræður átt sér stað við bandarísk yfirvöld. Þá hafi löggjöf um refsingar varðandi óheimilan aðgang að höfnum og flugvöllum verið tekin til skoðunar. „Við höfum brugðist við og ætlum að bregðast við hvað þetta snertir en munum að sjálfsögðu aldrei gera það á kostnað mannréttinda.“
Vigdís vísaði til frétta þess efnis að bandaríska strandgæslan hefði hótað því að krefjast hækkunar vástigs í íslenskum höfnum og að lokað yrði jafnvel fyrir siglingar íslenskra skipa til Bandaríkjanna. Spurði hún hvort það væru ekki mannréttindi að geta rekið fyrirtæki á Íslandi í eðlilegri samkeppni við alþjóðasamfélagið í þessum geira. „Það verður að grípa til aðgerða strax í þessu máli til að tryggja viðskiptahagsmuni Íslendinga.“
Ögmundur sagðist fullvissa Vigdísi að gripið hefði verið til aðgerða vegna þessara mála. Meðal annars með viðræðum við bandarísk yfirvöld en hann sagðist telja að kröfur þeirra væru að sumu leyti byggðar á misskilningi. „Við tökum ekki við skipunum frá erlendum ríkjum, hvort sem það eru Bandaríkin eða önnur, en við horfum á hverjir hagsmunir okkar eru í málinu.“