Veðurskeytastöð 815 á Stórhöfða í Vestmannaeyjum verður lögð niður í vor og hinn 1. maí tekur sjálfvirkur tæknibúnaður alfarið við. Þetta er gert í hagræðingarskyni en er einnig í takt við tímann því veðurathugunarmönnum fer smátt og smátt fækkandi - þótt starfsstéttin sé ekki alveg útdauð enn.
Skeyti á þriggja tíma fresti
Yfir 250 sjálfvirkar veðurstöðvar fylgjast stöðugt með veðrinu hér á landi en auk þess safna rúmlega 90 mannaðar stöðvar mismiklum upplýsingum, flestar þeirra úrkomustöðvar sem senda upplýsingu um úrkomu, snjódýpt og snjóalög einu sinni á dag, að morgni.
Mannaðar skeytastöðvar eru innan við þrjátíu og fækkar þeim um eina með Stórhöfða í vor, en þaðan hefur Pálmi Freyr Óskarsson veðurathugunarmaður sent 8 skeyti á dag, á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn.
Veðurathugun mikil skuldbinding
„Við höfum verið að byggja upp kerfi sjálfvirkra stöðva til þess að taka yfir á undanförnum árum og það kemur til með að halda áfram að þróast í þá átt,“ segir Óðinn Þórarinsson, framkvæmdastjóri athugana- og tæknisviðs Veðurstofu Íslands.
„Við notum oft tækifærið þegar menn komast á aldur, en svo er það líka að það getur verið erfitt að fá fólk til að binda sig yfir þessu starfi því þótt það taki kannski ekki langan tíma hverju sinni er það mikil binding að þurfa að senda 5-8 skeyti á sólarhring.“
Þegar veðurskeytastöðin í Stórhöfða verður lögð niður 30. apríl tekur við sjálfvirkur búnaður bæði á höfðanum sjálfum en einnig er sjálfvirk stöð í Vestmannaeyjabæ auk þess sem veðurathuganir eru gerðar á Vestmannaeyjaflugvelli. Skeytastöðin á Stórhöfða er því m.a. lögð niður á grundvelli hagræðingar.
Nýr veðurathugunarmaður í Bolungarvík
Samskonar þróun hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum síðustu ár þar sem fáar sem engar mannaðar veðurstöðvar eru eftir. Aðspurður segir Óðinn að sjálfvirku stöðvarnar komi ekki alveg í staðinn fyrir þær mönnuðu, sérstaklega. Strandstöðvarnar sérstaklega gefi upplýsingar um sjólag, skýjafar, skyggni og aðra þætti sem ekki séu auðmældir nema með flóknum og dýrum tækjum.
Stétt veðurathugunarmanna á mönnuðum stöðvum er því ekki alveg við það að deyja út þótt þeim fari fækkandi, og sem dæmi má nefna að fyrir skemmstu var ný manneskja ráðin til að sinna veðurathugun í Bolungarvík. „Það er okkar aðalstöð á Vestfjörðum og þess vegna lifir hún áfram. Við erum að draga úr mönnuðum stöðvum en sjaldnast leggjum við þær alveg af því við semjum við fólk sem er að hætta um að sinna einni athugun á sólarhring og það er þá úrkoman.“