„Þetta er ekki skaðlaus planta“

Kannabisplanta.
Kannabisplanta. AFP

Kannabisfíkn er algengasta og þar af leiðandi alvarlegasta vímuefnafíkn íslenskra ungmenna. Um er að ræða mjög ávanabindandi fíkniefni og vímuefni sem hefur alvarlegar afleiðingar. Þetta sagði Valgerður Rúnarsdóttir, lyflæknir á Vogi, á málþingi um geðræn áhrif kannabisneyslu.

Valgerður sagðist hafa miklar áhyggjur af þeim tilburðum að reyna gera kannabisneyslu að eðlilegum hlut í lífi hvers manns. Þar komi margt til, allt frá fíkniefnasalanum á götunni til kvikmynda og sjónvarpsþátta í Hollywood. „Skoðun fullorðinna, fjölskyldunnar og hinna eldri skiptir máli. Til dæmis hvað háskólamenntað fólk telur.“

Hún sagði alla vita að um vímuefni væri að ræða. Kannabis væri einnig ávanabindandi og því fíkniefni einnig. Um væri að ræða líkamlega ávanabindingu og til að komast hjá fráhvörfum fengi viðkomandi sér meira að reykja, þ.e. til að verða eðlilegur.

Þá vitnaði Valgerður í tölur frá SÁÁ en árið 1995 voru 23% þeirra sem komu á Vog, 19 ára og yngri, með kannabis sem aðalvanda. Árið 2011 var hlutfallið orðið 71%, en  af öllum aldurshópum var hlutfallið 21% árið 2011. Hún nefndi að árið 2011 hefðu 204 ungmenni komið á Vog, af þeim höfðu 96% notað kannabis, 87% reglulega og 83% daglega.

Ennfremur fór Valgerður yfir nokkrar vinsælar staðhæfingar. Til dæmis að allir séu að gera það, þ.e. reykja kannabis. „Nei, það er ekki rétt. Fæstir eru að gera það.“ Einnig að það skipti engu máli hvort um náttúrulegt efni sé að ræða. Það segi ekkert til um hvort það sé hollt eða gott fyrir líkamann. „Þetta er ekki skaðlaus planta heldur raunverulegt fíkniefni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert