„Þetta er önnur vonlaus tilraun Íslendinga til þess að verja óverjandi ákvarðanir sínar um að auka gríðarlega og með einhliða hætti makrílkvóta sinn án alþjóðlegs samkomulags,“ segir Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri Samtaka skoskra útgerðarmanna, í yfirlýsingu vegna frétta af því að íslensk stjórnvöld hafi boðið breskum blaðamönnum til landsins til þess að fræðast um afstöðu Íslands í makríldeilunni.
Armstrong segir að Íslendingar ættu frekar að verja orku sinni í það að reyna að ná samkomulagi um makrílveiðarnar en í tilgangslaus almannatengsl vegna makríldeilunnar. Boltinn sé hjá Íslandi og Færeyjum í deilunni. Ríkin tvö þurfi að koma með tillögur að lausn deilunnar til þess að viðræður geti hafist að nýju. Þrátt fyrir að Evrópusambandið og Noregur hafi ítrekað komið með slíkar tillögur hafi undirtektir verið engar hjá Íslendingum og Færeyingum.
„Þetta er ástæðan fyrir því að Evrópusambandið er svo reitt vegna stöðunnar og að framkvæmdastjórn sambandsins hefur tilkynnt strandríkjunum sem aðild eiga að málinu að það taki ekki þátt í fleiri viðræðufundum fyrr en tilboð hefur verið lagt fram af annarri hvorri þjóðinni eða þeim báðum,“ segir hann ennfremur í tilkynningunni en greint er frá henni á fréttavefnum Fishnewseu. com.