Reykjavík verður í regnbogalitum um helgina, allavega hjá hópi hinsegin ferðamanna sem komnir eru hingað til lands vegna vetrarhátíðarinnar Rainbow Reykjavík. Skipuleggjendur hátíðarinnar, sem er nú haldin í annað sinn, vonast til að hún festi sig í sessi sem árlegur vetrarviðburður líkt og Iceland Airwaves.
„Þetta er fjögurra daga hátíð þar sem útlendingar koma í vetrarfrí. Við bjóðum þeim upp á þéttan pakka af öllu því flottasta sem okkur finnst Ísland hafa upp á að bjóða,“ segir Birna Hrönn Björnsdóttir, einn eigenda Pink Iceland, sem stendur fyrir hátíðinni.
Kærkomin menningarviðbót um hávetur
Um 70 manna hópur kom til landsins í gær frá níu löndum Evrópu og Norður-Ameríku. Það eru um 30% fleiri en í fyrra og standa vonir til að hátíðin haldi áfram að vaxa. „Við erum búin að fjárfesta í þessu til þriggja ára, þannig að þetta verður pottþétt aftur á næsta ári og þá verður þetta vonandi orðið svo stórt og flott að það verður ekki aftur snúið.“
Markvisst hefur verið unnið að því að lengja ferðamannatímabilið og fá fleiri erlenda gesti hingað til lands yfir veturinn. Birna segir Rainbow Reykjavík lið í því. „Í febrúar vantar fólk í flugvélarnar og á hótelin, þannig að þetta er kærkomin menningarviðbót við þennan tíma. Markmið okkar er að þetta verði stór, árleg vetrarhátíð eins og Iceland Airwaves með viðburðum sem hægt er að velja á milli. Það er náttúrlega draumurinn.“
Birna segir það sérstaklega gleðilegt hve mikil og góð þátttaka sé meðal heimamanna líka í ár. „Við lögðum áherslu á að kynna þetta fyrir Íslendingum og það er mun meiri áhugi hjá þeim en í fyrra, sérstaklega fyrir partíunum og stóru viðburðunum um helgina. Það skiptir máli enda talaði fólk um það í fyrra hvað það væri gaman að skyggnast svona inn í íslenskt líf og menningu.“
Hinsegin saga Reykjavíkur sögð
Af dagskrá hátíðarinnar um helgina má ráða að það besta sem Ísland hefur upp á að bjóða sé að sjálfsögðu náttúran, því hægt er að velja milli dagsferða og norðurljósaferða út fyrir borgarmörkin, auk menningarinnar. Gestirnir fá m.a. að kynnast íslenskri glímu, matargerð og tónlist.
Hápunktur hátíðarinnar verða Eurovision-tónleikar í Hörpu í kvöld þar sem fram koma m.a. Páll Óskar, Hera Björk og Friðrik Ómar. Margir gestanna eru að sögn Birnu Hrannar miklir Eurovision-aðdáendur sem hlakka til að hitta íslensku listamennina.
Á morgun verður boðið upp á sérstaka ferð um borgina með leiðsögn þar sem þátttakendur fá að kynnast Reykjavík á sögulegan og hinsegin sögulegan hátt. M.a. verður bent á gamla gay-bari í skemmtanalífinu, skrifstofu Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrsta opinberlega samkynhneigða þjóðarleiðtoga heims, höfuðstöðvar Samtakanna '78, hvar gleðigöngurnar fara fram o.fl.
Geta sýnt sinn innri mann
Birna segir að íslensk menning sé ekki síður sterkt útspil í markaðssetningu ferða hingað til lands gagnvart hinsegin fólki. Hér geti það um frjálst höfuð strokið, notið landsins eins og hver annar ferðamaður að viðbættu „hýru tvisti“ sem hátíðin setur.
„Við búum við það umhverfi að geta fullyrt við okkar fólk að það geti gengið að „gay friendly“ þjónustu hér. Við segjum: „Komið eins og þið eruð. Hér er þessi hátíð og við skulum hafa gaman saman. Allir vita að þið eruð hinsegin og fólk þarf ekki að vera hrætt við að sýna sína innri liti.“