Grimmur hundur beit af skotti smáhunds

Stór hundur réðst á konu með smáhund í Fossvogsdalnum í …
Stór hundur réðst á konu með smáhund í Fossvogsdalnum í gærkvöldi. Myndin er úr myndasafni. mbl.is

Stór hundur, sem talinn er vera af Doberman-kyni, réðst á konu sem var á gangi með smáhund í Fossvogsdalnum í Kópavogi í gærkvöldi. Bæði konan og smáhundurinn eru nokkuð slösuð eftir árásina. Hundurinn króaði þau af þannig að þau komust hvergi og beit af skotti smáhundsins. Nágrannar komu þeim til hjálpar eftir illan leik. Málið hefur verið kært til lögreglu og tilkynnt til hundaeftirlitsins.

„Ég var á gangi með hundinn minn í rólegheitum í gærkvöldi og var að horfa upp í himininn, að skoða stjörnurnar, þegar að okkur réðst stór hundur, sem sjónarvottar segja að hafi verið Doberman,“ segir konan sem ekki vill láta nafns síns getið.

„Hann hlýtur að hafa læðst að okkur, því við urðum við ekkert vör við hann fyrr en hann réðst að okkur. Hann réðst fyrst á litla hundinn minn, tók hann í kjaftinn en missti hann sem betur fer fljótlega. Ég reyndi að varna þessu, en þá réðst hann á mig og beit mig í handlegginn, í gegnum þykka úlpu, reyndi að glefsa í hinn handlegginn á mér og glefsaði síðan í lærið á mér.“

„Þetta var einfaldlega hræðilegt“

Konan er bæði marin og bólgin eftir árásina og þurfti að leita til læknis á slysadeild. Smáhundurinn er talsvert slasaður, en hundurinn beit aftan af skotti hans og að auki er hann með ýmsar skrámur.

„Þetta var einfaldlega hræðilegt. Ég reyndi allt sem ég gat til að bægja hundinum frá, að koma honum í burtu og reyna að verja mig og hundinn minn með því að snúa mér undan honum. En hann króaði mig sífellt af. Þegar ég sá einn nágranna minn horfa út um gluggann hrópaði ég á hjálp og þá kom fólk úr þremur húsum og kom mér inn í eitt húsanna. En hundurinn hljóp ítrekað fyrir mig og reyndi að koma í veg fyrir að ég kæmist inn.“

Konan segir að þá hafi bíll komið aðvífandi, hundurinn hafi verið tekinn inn í bílinn og ekið með hann á brott. Lögregla var kvödd á vettvang og tók skýrslu um málið. Hún fór síðan í morgun og kærði atvikið og ræddi líka við hundaeftirlitið. 

Óttast alvarlega árás

Að sögn konunnar býr hundurinn í nágrenni við hana, en skammt frá eru bæði grunn- og leikskóli. „Ég þori varla að hugsa um hvað gæti gerst ef hann réðist á barn sem væri á leið heim úr skóla. Ég er hrædd um að það gæti orðið töluvert alvarlegra en það sem ég lenti í í gær. Hvað myndi til dæmis gerast ef stór og árásargjarn hundur birtist skyndilega á skólalóðinni?“

Lausaganga hunda er bönnuð þar sem umferð ökutækja og gangandi fólks er almenn. Í 10. grein í reglum um hundahald í Kópavogi segir að hundaeiganda sé skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu. Í 11 .grein sömu reglna segir að hafi eigandi ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur skuli hann sjá til þess að hundurinn sé mýldur utan heimilis. Þar segir líka að hafi hundur bitið mann og/eða sé hættulegur geti eftirlitsaðili, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður.

Málið hefur verið kært til lögregku og að auki verið …
Málið hefur verið kært til lögregku og að auki verið tilkynnt til hundaeftirlitsins í Kópavogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert