„Það er gaman að uppskera svona vel. Við höfum unnið að þessu í tvö ár og núna er árangurinn að koma í ljós,“ segir Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, en flokkurinn mælist með umtalsvert fylgi í tveimur nýjum skoðanakönnunum sem greint var frá í kvöld.
Í könnun Capacent mælist Björt framtíð með næst mest fylgi allra flokka, 19%. Í könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins mælist flokkurinn með 16% fylgi.
„Það má samt ekki gleyma því að það eru 12 vikur til kosninga og margt getur breyst. En við stefnum að sjálfsögðu að því að ná sem bestum árangri 27. apríl,“ segir Heiða Kristín.
Hún segir margt stuðla að þessari góðu útkomu í skoðanakönnununum.
„Það er erfitt að benda á eitthvað eitt. En ég held að það skipti miklu máli að fólk veit að við meinum það sem við segjum og gerum. Við höfum líka gott fólk með okkur, framboðslistarnir okkar eru mjög fjölbreyttir og það er mikilvægt fyrir svona nýtt afl. Margir hafa ekki starfað áður að stjórnmálum og ég held að það skipti líka máli í þessu sambandi, við erum með ferskan og fjölbreyttan hóp sem er tilbúinn til að takast á við ný verkefni. Við vinnum að miklu leyti samkvæmt hugmyndafræði Besta flokksins og höfum náð stöðugleika í borginni, fólk sér að þetta virkar.“