„Það er vitanlega ekki skemmtilegt fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að fá slíkar kannanir á síðasta degi hennar sem formaður Samfylkingarinnar sem sýna lítið fylgi við hennar flokk og óvinsældir ríkisstjórnar hennar og það fjórum árum upp á dag frá því að hún tók við sem forsætisráðherra.“
Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um niðurstöður tveggja skoðanakannana sem birtar voru í dag. Samkvæmt þjóðarpúlsi Capacent er Samfylkingin nú með 16% en könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins 12%. Samkvæmt því hefur Samfylkingin tapað allavega um helmingi fylgis síns frá síðustu þingkosningum en þá fékk flokkurinn um 30% fylgi.
Björt framtíð bætir mjög við sig í báðum könnunum og mælist annars vegar með 19% og hins vegar 16%. Mest af því fylgi kemur væntanlega frá Samfylkingunni að sögn Stefaníu en telur líklegast að það muni skila sér að einhverju leyti aftur til flokksins. Það fari þó eftir því hvort Samfylkingunni takist að ná vopnum sínum fram að kosningum sem sé verkefni nýs formanns.
„Fólk kann vel að meta Framsóknarflokkinn eftir Icesave-dóminn og það kann að vera að hann nái sér á strik núna þó ég telji persónulega að hann fari ekki hærra en svona 17%. En það á eftir að koma í ljós,“ segir hún en Framsóknarflokkurinn bætir við sig fylgi í báðum könnunum. Einu prósenti hjá Capacent, sem væntanlega er gerð að mestu eða öllu leyti fyrir dóm EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu, og fer í 14% en fer í 21% í könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins sem gerð var eftir dóminn.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð tapar einnig fylgi líkt og Samfylkingin og mælist með 8% samkvæmt þjóðarpúlsinum en 7% í könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Stefanía segist ekki eiga von á að VG fari lægra en það og að flokkurinn sé kominn niður í kjarnafylgi sitt. Það eigi þó eftir að koma í ljós hvort samkeppni verði um það fylgi sem er mest til vinstri. Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr stærsti flokkur landsins með 36% samkvæmt Capasent og 32% samkvæmt könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins sem er á sama róli og í fyrri könnunum.
„Það er ótrúleg seigla í þessu flokkakerfi. Þó fólk sé ekki ánægt með sína menn þá hefur það samt tilhneigingu til að kjósa þá og gefa þeim tækifæri. En það á auðvitað ekki við um alla og þá skapast einhver tímabundin tækifæri fyrir ný framboð,“ segir Stefanía.