„Svo skilst mér að hvorugur hafi ofnæmi fyrir köttum, sem er kostur og mæli ég þar af fyrri reynslu,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, þegar hún ræddi um þá sem boðið hafa sig fram í embætti formanns Samfylkingarinnar.
Á morgun kemur í ljós hvort það verður Árni Páll Árnason eða Guðbjartur Hannesson sem tekur við af Jóhönnu. Jóhanna sagði á landsfundi Samfylkingarinnar í dag að hvort sem það yrði Árni Páll eða Guðbjartur sem tæki við henni yrði flokkurinn í góðum höndum. Hún sló svo á létta strengi og sagði: „Svo skilst mér að hvorugur hafi ofnæmi fyrir köttum, sem er kostur og mæli ég þar af fyrri reynslu.“
Jóhanna vísaði þar til ummæla sem hún lét falla á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar árið 2010, en þá sagði hún: „Það heldur engin ríkisstjórn það út til lengdar að búa við óvissan og ótraustan meirihluta í stórum og erfiðum málum. Á óvissu- og erfiðleikatímum er það lykilatriði að ríkisstjórn hafi traust og fast land undir fótum. Hoppandi meirihlutar á Alþingi duga skammt við aðstæður eins og okkar þjóð er í nú og of mikil orka og tími fer í að smala þeim saman og ná málum í gegn. Ein flokkssystir okkar orðaði þetta ágætlega þegar hún sagði að þetta væri „eins og að smala köttum“.“
Jóhanna vék einnig að samstöðu innan stjórnarflokkanna í ræðu sinni í dag. „Ekki dettur mér í hug að halda því fram að ríkisstjórnarsamstarfið hafi gengið átakalaust eða áfallalaust fyrir sig og ég viðurkenni fúslega að of mikil óeining hefur ríkt innann samstarfsflokksins - of margir gáfust upp á verkefninu, sem valdið hefur ríkisstjórninni skaða.“