Forsetinn: AGS lærði lexíu á Íslandi

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Kristinn Ingvarsson

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lærði margt af samstarfinu við Íslendinga eftir efnahagshrunið 2008 og má meðal annars greina það í málflutningi Christine Lagarde, forstjóra AGS. Þetta kemur fram í viðtali Deutsche Welle við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands.

Forsetinn hefur áður rætt framgöngu AGS á Íslandi og í Icesave-deilunni og má þar nefna þau ummæli hans að Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi forstjóri AGS, hafi látið þau orð falla í samtali við sig að sjóðurinn hafi unað því illa að vera notaður eins og „hnefi“ í deilunni.

Þýska fréttastofan spurði Ólaf Ragnar hvort hann teldi að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, forstjóri AGS og aðrir áhrifamenn ættu að fylgja leiðum Íslendinga í glímunni við efnahagskreppu. 

Telur reynslu Íslands hafa haft áhrif á Lagarde

Forsetinn svaraði því þá til að reynsla Íslendinga af samstarfinu við AGS ætti að vekja aðra til umhugsunar um afstöðu sína og leiða til endurmats á viðteknum viðhorfum í fjármálum og stjórnmálum á síðustu þrem áratugum.

„Hátt settir fulltrúar AGS voru nógu heiðarlegir til að viðurkenna að þeir hefðu lært margt af reynslu sinni á Íslandi. Við munum nú rannsaka og ræða þá stefnumótun sem AGS hélt sig við í Asíukreppunni á síðustu öld. Ég tel að ég geti greint í nokkrum ummælum AGS-forstjórans [Christine] Lagarde að hún hefur nú aðra sýn á hlutina en margir evrópskir leiðtogar,“ sagði forsetinn í lauslegri þýðingu.

Þá er haft eftir forsetanum að hann telji að gengisfelling krónunnar hafi átt sinn þátt í efnahagsbatanum á Íslandi á síðustu árum.

Viðtal Deutsche Welle má nálgast hér en það var tekið á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos og birt á vef fréttastofunnar í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert