Svo virðist sem sala á sólarlandaferðum hafi farið vel af stað nú í vetur að því er fulltrúar ferðaskrifstofa segja í Morgunblaðinu í dag.
„Árið í fyrra var mjög gott, eiginlega það besta eftir hrun, og það varð aukning á milli ára. Ég á von á að þetta ár verði ekki síðra og jafnvel betra miðað við móttökurnar sem við höfum fengið. Það er greinilegt að fólk ætlar að ferðast í ár,“ segir Þyri Kristínardóttir, sölustjóri Heimssýnar, um bókanir fyrirtækisins á sólarlandaferðum.
Endalok Icesave-málsins virðast hafa hvatt einhverja til að leggjast í ferðalög. „Daginn sem Icesave-dómurinn féll komu tveir viðskiptavinir sem tóku það sérstaklega fram að þeir væru að bóka ferð í tilefni af þessum góðu fréttum!“ segir Þyri.