Ingvar P. Guðbjörnsson -
„Hagsmunir Íslands eru best tryggðir með samvinnu innan fjölþjóðlegra stofnana og bandalags þjóða. Ísland á heima í samfélagi Evrópuríkja og á að hafa þar áhrif eins og fullvalda þjóð sæmir. Það er forgangsverkefni jafnaðarmanna að halda aðildarviðræðum áfram af fullri einurð og að leggja fullbúinn samning í þjóðaratkvæði,“ segir í stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar sem samþykkt var rétt í þessu.
Um EES-samninginn segir: „Ljóst er að EES-samningurinn mun ekki duga til lengri tíma til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar. Kemur það bæði til að samningurinn nálgast nú þolmörk gagnvart innlendri stjórnskipan og eins hitt að sífellt reynist erfiðara að tryggja samræmdar reglur á öllu svæðinu eftir því sem stjórnskipan Evrópusambandsins breytist.“
Þá segir um gjaldeyrismál: „Losun fjármagnshafta verður eitt af meginviðfangsefnum næsta kjörtímabils. Æskilegt er að ná þverpólitískri samstöðu um nauðsynleg skref í því verkefni, samhliða víðtækri samstöðu um efnahagslegan stöðugleika og stöðugt gengi. Samfylkingin leggur fram varðaða leið að lokamarkinu sem felur í sér inngöngu í ERM II-myntsamstarfið og síðan upptöku evru, í samvinnu við Evrópusambandið, Evrópska seðlabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“