Hálka og snjóþekja víða á vegum

mbl.is/Ómar

Flughált er á Hellisheiði og skafrenningur. Hálka er á Sandskeiði og víða í uppsveitum sunnanlands. Snjóþekja er hins vegar á Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og á Biskupstungnabraut. Þá eru hálkublettir á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi og á flestum leiðum á Reykjanesi.

Snjóþekja eða hálka er á flestum leiðum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Þæfingsfærð er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum en unnið er að hreinsun samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Á Norðurlandi vestra er hálka víðast hvar en snjóþekja á fjallvegum. Þæfingsfærð er á Þverárfjalli en einnig er unnið að hreinsun þar. Þá er snjóþekja og skafrenningur á Öxnadalsheiði.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er víða Norðaustanlands. Snjóþekja og éljagangur er í Víkurskarði og skafrenningur í Köldukinn og á Fljótsheiði. Enn er þungfært á Mývatns- og Möðrudalsöræfum en unnið er að hreinsun. Austanlands er víða hálka eða hálkublettir en snjóþekja á Fjarðarheiði. Í Oddskarði er hálka og skafrenningur.

Greiðfært er hins vegar með suðausturströndinni frá Djúpavogi að Lómagnúp en þar taka við hálkublettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert