Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt. Þannig voru fjórar líkamsárásir tilkynntar í miðbæ Reykjavíkur og voru gerendur í tveimur þeirra handteknir og gista nú fangageymslur. Þeir verða yfirheyrðir síðar í dag.
Ennfremur urðu átta umferðaróhöpp og í einu þeirra urðu slys á fólki en það óhapp átti sér stað rétt fyrir klukkan fimm í nótt á Hafnarfjarðarvegi við Hamraborg. Tveir voru fluttir á slysadeild samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en ekki liggur fyrir hversu alvarlega slasaðir þeir eru.
Þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir grunaðir um ölvun undir stýri. Þeir voru látnir lausir að lokinni skýrslutöku og töku blóðsýnis. Að síðustu gistir einstaklingur fangageymslur vegna brots á fjarskiptalögum en hann var handtekinn eftir að hafa hringt 200 sinnum í Neyðarlínuna 112 í nótt.