„Kyrrstaða er ekki valkostur“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

„Í efnahagsmálum verður fyrsta verkefni næstu ríkisstjórnar að tryggja þjóðarsátt um efnahagslegan stöðugleika og fá alla saman í það verkefni að afneita efnahagslegum kollsteypum sem bjargráðum við efnahagsvanda,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni á landsfundi flokksins í Valsheimilinu að Hlíðarenda nú síðdegis í dag.

„Við finnum öll léttinn nú þegar Icesave-málið er að baki. Skömm okkar yfir því máli og ótti okkar yfir málalyktum hafði þrúgandi áhrif á allt samfélagið allt frá hruni,“ sagði Árni Páll.

Vilja verða fullgildir aðilar að ESB

„Hrunið og Icesave-málið staðfesta mikilvægi þess að við skilgreinum rétt hagsmuni Íslands og berjumst fyrir þeim á evrópskum vettvangi. Við viljum ekki verða aðilar að Evrópusambandinu til að sitja þar á forsendum annarra. Við viljum verða fullgildir aðilar því við trúum því að íslenskum hagsmunum sé best gætt með því að við séum við borðið þegar ráðum er ráðið,“ sagði Árni Páll.

Hann sagði réttar ákvarðanir hafa verið teknar haustið 2008 til að hlífa almenningi við því tjóni sem hefði getað orðið við bankahrunið.

„Flest bendir til að það verði okkur hentugt að vera aðilar að nýju bankasambandi sem felur í sér sameiginlegan gjaldmiðil, innstæðutryggingakerfi þvert á landamæri og sameiginlegan lánveitanda til þrautavara. En hættan er sú að áframhaldandi vera okkar í EES leiði til þess að við tökum búta og búta hins nýja regluverks upp, án þess að fá aðild að stofnunum sem ákvarðanirnar taka og séum þá í þeirri stöðu að hafa afsalað okkur fullveldi okkar til að grípa aftur til hliðstæðra ákvarðana og nýttust okkur svo vel í hruninu, ef hliðstæðar aðstæður rísa á nýjan leik,“ sagði Árni Páll.

„Saga krónu saga skipulegs arðráns“

Árni Páll ræddi íslensku krónuna og sagði: „Ég hef ekki þreyst á að minna á að saga íslenskrar krónu er saga skipulegs arðráns á íslensku launafólki. Árið 1901 fagnaði verkafólk því að fá laun í gjaldgengum gjaldmiðli og naut þess ávinnings í 19 ár, þar til að krónan var aftengd gullfætinum og hinni dönsku krónu. Í þessi 19 ár naut íslenskt launafólk semsagt gengistryggðra launa – ég endurtek gengistryggðra launa!! Hver myndi ekki þiggja þau kjör í dag?“

„Rótarmeinið er gjaldmiðilinn“

„Þrátt fyrir baráttu okkar og verkalýðshreyfingarinnar í 100 ár höfum við ekki náð sama peningalega öryggi og íslenskt launafólk bjó við fyrir 100 árum! Ég hef líka minnt á það rótarmein sem gjaldmiðillinn er og hvernig úrlausn allra okkar þjóðþrifamála – skuldavandans, einhæfni í atvinnuháttum, veikrar stöðu landsbyggðar og lítillar fjárfestingar – hangir á því að við losnum við skaðleg áhrif þessa meins,“ sagði Árni Páll einnig um íslensku krónuna.

Ekki í ESB til að fórna hagsmunum þjóðar

„Við viljum nefnilega ekki verða aðilar að Evrópusambandinu til að fórna hagsmunum þjóðarinnar og við viljum ekki taka upp evrópskar reglur, ef þær henta ekki íslenskum þjóðarhagsmunum. En í evrópsku samstarfi felast tækifæri til samfélagsbreytinga sem við jafnaðarmenn skuldum íslenskri þjóð. Við verðum að fá laun í sama gjaldmiðli og við skuldum í, eins og fólk naut fyrir réttum 100 árum hér á landi,“ sagði Árni Páll.

„Nú er deigla á nýjan leik í Evrópu“

„EES varð til vegna hrikalegra flekaskila í alþjóðamálum – hruns járntjaldsins – sem við nýttum okkur. Nú er deigla á nýjan leik í Evrópu. Icesave-málið mun hafa áhrif á varnarviðbúnað Evrópuríkja. Við eigum að læra af þeim veikleikum sem komu í ljós í hruninu og taka okkur stöðu í þessari deiglu til að verja íslenskt launafólk fyrir skaðlegum áhrifum lítils gjaldmiðils í ólgusjó frjálsra fjármagnsflutninga,“ sagði Árni Páll.

Kyrrstaða er ekki valkostur

„Ef við þróum ekki áfram velferðarkerfi til að takast á við nýjar kröfur um góða þjónustu og mætum væntingum fólks um vald yfir eigin lífi eykst fylgi við tvöfalt velferðarkerfi og forgang þeirra sem meira hafa milli handanna og gæði hins opinbera kerfis rýrna. Ef við mætum ekki nýjum hættum í efnahagsumgjörðinni getum við gert okkur berskjölduð fyrir öðru hruni og flæmt vaxtarbrodda úr landi. [...] Okkar bíður ný sókn, því kyrrstaða er ekki valkostur,“ sagði Árni Páll.

Árni Páll gerði kosningarnar í vor að umtalsefni og sagði: „Í vor verður kosið um þessa mynd – sem kannski má einfalda með fjórum orðum: Lífskjör, leikreglur, tækifæri og lífsgleði. Við verðum með verkum okkar að gera fólki fært að búa hér við samkeppnishæf lífskjör, skýrar leikreglur og tækifæri til að móta eigin líf.“

„Verðum að hafa trú á framtíð landsins“

„Við verðum að hafa trú á framtíð í þessu landi og metnað fyrir hönd þeirra sem hér eiga að taka við eftir að við verðum öll horfin af sviðinu – nema kannski Jóhanna. Verk okkar næstu misserin verða að styðja við framtíð þeirra og gera þeim kleift að finna kröftum sínum viðnám, draumum sínum stað og sköpunargleði sinni farveg,“ sagði Árni Páll í ræðu sinni á landsfundi Samfylkingar í dag.

Árni Páll segir tækifæri felast í Evrópusambandsaðild.
Árni Páll segir tækifæri felast í Evrópusambandsaðild. mbl.is/Kristinn
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og Margrét K. Sverrisdóttir, formaður …
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og Margrét K. Sverrisdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert