„Ég hlæ nú bara að því að einhverjum myndi detta í hug að stela þessu lagi. Fyrir utan það er lagið ekki einu sinni líkt okkar, fyrir utan það að í viðlaginu eru þrjú atkvæði. Ég segi bara mu við þessu,“ segir Örlygur Smári lagahöfundur lagsins Ég á Líf sem verður framlag Íslands í Eurovision árið 2013.
Netverjar hafa margir ásakað höfunda lagsins um lagastuld en að sumra mati má heyra líkindi með erlendu lagi sem heitir I´m a cow í flutningi kanadískrar grínhljómsveitar sem nefnist Arrogant Worms.
„Þetta kemur alltaf upp og maður er nú ekki að heyra um svona í fyrsta skipti. Ég get alla vega sagt að ef maður ætlaði að stela einhverju lagi þá væri það líklega ekki þetta lag,“ segir Örlygur Smári og hlær við.
Örlygur Smári samdi lagið, Pétur Örn Guðmundsson texta og Eyþór Ingi Gunnlaugsson söng. „Við erum í skýjunum. Okkur langaði að gera fallegt og flott lag með ótrúlega góðum söngvara. Það gaf okkur mikla gleði að sjá viðbrögðin sem lagið fékk og það verður frábært að fara með lagið út fyrir Íslands hönd,“ segir Örlygur Smári.
Nú tekur við vinna að lokaútgáfu lagsins sem þarf að vera tilbúið um miðjan mars. Enskur texti liggur ekki fyrir. „Við þorum í það minnsta ekki að hafa það I´m a cow. Því það væri stuldur,“ segir Örlygur Smári og hlær við.